Innlent

Brutu jafnréttislög við ráðningu sérfræðings

Andri Eysteinsson skrifar
Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. Vísir/Vilhelm
Kærunefnd jafnréttismála segir Landspítalann hafa brotið jafnréttislög þegar ráðið var í stöðu sérfræðings í meltingarlækningum. Staðan var auglýst í september í fyrra og ráðið í hana í febrúar á þessu ári.

Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að við ráðninguna hafi Landspítalinn brotið lög um jafna stöðu karla og kvenna. RÚV greindi fyrst frá.

Taldi sig hæfari en karlinn sem ráðinn var

Kærandi, sem er kona taldi brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með því að ráða karl í starfið en konan taldi sig hæfari en karlinn sem ráðinn var.

Landspítalinn rökstuddi ráðninguna með því að karlinn hafi verið hæfari og vísaði þar sérstaklega til frammistöðu í starfsviðtali.

Kærunefnd segir í úrskurðinum að af samantekt verði ekki annað ráðið en að kærandi sé verulega reynslumeiri en karlinn sem var ráðinn.

Landspítalinn telst því ekki hafa sýnt fram á að aðrir þættir en kynferði hafi ráðið niðurstöðu ráðningarferlisins. Skoðun kærunefndar á minnispunktum úr viðtölum varpa ekki ljósi á að sá sem ráðinn var búi yfir ríkari samskiptahæfileikum en kærandi.

Ekki hafi því verið unnt að ganga fram hjá konunni við ráðninguna á þeim forsendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×