Í viðtali við þýska blaðið Der Spiegel sagði hvatti Corbyn landsmenn til þess að „viðurkenna ástæður þess að fólk kaus útgöngu“ og gagnrýndi efnahagsstefnu Evrópusambandsins sem hann telur einkennast af „nýfrjálshyggju“.
Spurður að því hvort að hann myndi stöðva Brexit ef hann yrði forsætisráherra Bretlands vegna sundrungarinnar sem fyrirhuguð útganga úr ESB hafi haft í för með sér svaraði Corbyn neitandi.
„Við getum ekki stöðvað það. Þjóðaratkvæðagreiðslan átti sér stað. Fimmtugasta greinin hefur verið virkjuð. Það sem við getum gert er að viðurkenna ástæður þess að fólk kaus að ganga út,“ sagði Corbyn.
Þau orð hafa ekki vakið mikla kátínu hjá flokkssystkinum Corbyn sem vilja að Bretar verði áfram í Evrópusambandinu eða að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um útgöngusamning verði haldin. Aðeins tveir mánuðir séu liðnir frá því að Corbyn ávarpaði þing flokksins og sagði „alla möguleika uppi á borðinu,“ að því er segir í frétt The Guardian.
„Við vitum að þetta er klúður í boði íhaldsmanna en Verkamannaflokkurinn getur ekki bara haldið sig til hlés og fylgst með. Það er tími til kominn fyrir okkur öll í Verkamannaflokknum að færa hávær rök fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu með möguleikanum á að vera um kyrrt í Evrópusambandinu,“ segir Wes Streeting, þingmaður flokksins.
Ekki áhugasamur um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu
Jo Johnson, samgönguráðherra í ríkisstjórn Theresu May, sagði af sér vegna Brexit fyrir helgi. Kallaði hann eftir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu.Corbyn segist þó ekki hafa áhuga á því í viðtalinu við Spiegel.
„Þjóðaratkvæðagreiðslan átti sér stað. Málið núna er hvernig við sameinum fólk, sameinum það um grundvallaratriði efnahagslífsins okkar, réttindin okkar og að við viljum ekki breyta þessu landi í einhvers konar aflandsskattaparadís á þeim nótum sem Donald Trump gæti viljað að við gerðum,“ sagði Corbyn.