Viðskipti innlent

Kom ekki til greina að fara í Bónus til að halda Hagavagninum opnum eftir að allt kláraðist

Kolbeinn Tumi Daðason og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Ólafur Örn Ólafsson, einn eigenda Hagavagnins.
Ólafur Örn Ólafsson, einn eigenda Hagavagnins. Vísir/Kolbeinn Tumi
Hagavagninn var opnaður á nýjan leik á föstudaginn í glænýjum búningi. Viðskiptavinir þurftu margir hverjir frá að hverfa á laugardaginn vegna þess að hamborgararnir, og annað hráefni, kláruðust fyrr en áætlað var.

„Það var bara röð þegar við opnuðum. Hún var ekkert löng en það var samt röð. Svo var bara sá dagur brjálaður og stöðugt rennerí á laugardaginn líka þannig að við þurftum að loka klukkan fimm,“ segir Ólafur Örn Ólafsson sem er einn eiganda vagnsins ásamttónlistarmanninum Emmsjé Gauta og hjónunum Rakel Þórhallsdóttur og Jóhanni Guðlaugssyni

Ólafur Örn stóð vaktina í gær þegar blaðamann bar að garði en þá var hann að þrífa og gera klárt fyrir daginn í dag. Ekki var hægt að hafa opið í gær þar sem allt kláraðist og ekki hægt að fylla á það sem vantaði á sunnudegi.

„Ég er að reyna að þrífa og að pikkla allan lauk sem ég á fyrir morgundaginn,“ segir Ólafur Örn sem segir að ekki hafi komið til greina að fara í Bónus eða aðra verslun til þess að halda staðnum opnum á laugardaginn eða í gær.

„Við erum með sérblandað hakk í borgarana og viljum halda okkur við það. Það er þess vegna sem þeir eru góðir,“ segir Ólafur Örn.

Staðurinn átti að vera opinn til klukkan níu á laugardaginn og annað eins í gærkvöldi en þrátt fyrir að Ólafur Örn sé svekktur með að hafa ekki getað haft opið fyrir viðskiptavini eins og til stóð sé þó góðs viti að viðtökurnar hafi verið svo góðar að allt hafi klárast. Það muni þó ekki koma fyrir aftur að staðurinn þurfi að loka vegna vinsælda.

„Ég vona bara að allir dagar verði svona.“

Hagavagninn er gjörbreyttur.Mynd/Kolbeinn Tumi

Tengdar fréttir

Fannst vanta „basic burger“ í hverfið

Hagavagninn, vinaleg sjoppa í Vesturbænum, mun ganga í endurnýjun lífdaga og opna sem hamborgarastaður á næstunni. Emmsjé Gauti er einn þeirra sem að staðnum koma og hann er spenntur

Haga­vagninn verður rifinn og endur­reistur

Hagavagninum er verið að breyta í hamborgarastað um þessar mundir en ekki tókst að gera hann upp, því þarf að rífa hann og byggja nýjan. Einn aðstandenda vagnsins, Emmsjé Gauti, segir þetta sorglegt en er bjartsýnn á að nýi vagninn muni ekki valda vonbrigðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×