Friedrich Merz, sem nefndur hefur verið sem hugsanlegur arftaki Angelu Merkel í stóli formanns Kristilegra demókrata (CDU) í Þýskalandi, hefur útilokað að eiga samstarf við hægripopúlistaflokkinn Alternativ für Deutschland (AfD).
„Flokkur sem er opinberlega nasískur og er með hreinan gyðingahatursundirtón, þar er þörf á skýrri afmörkun til hægri,“ segir Merz í útvarpsviðtali við ríkisfjölmiðilinn WDR 5.
Merz segir þó ennfremur vilja ná þeim kjósendum CDU sem hafi kosið AfD að undanförnu aftur til baka. AfD hefur unnið mikla sigra í kosningum að undanförnu, en á sama tíma hefur fjarað undan fylgi hefðbundnu stjórnarflokkanna í þýskum stjórnmálum, Kristilegum demókrötum og Jafnaðarmönnum.
Sækist ekki eftir endurkjöri
Merkel greindi frá því í lok október að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður CDU á landsþingi í desember. Hún hyggst þó sitja áfram sem kanslari út kjörtímabilið sem lýkur 2021. Ljóst þykir að baráttan um formannsstólinn standi á milli Merz og Annegret Kramp-Karrenbauer, framkvæmdastjóra CDU.
AfD var stofnað árið 2013 og hefur talað fyrir því að stöðva straum innflytenda til Þýskalands og talað gegn múslimum. AfD náði í fyrsta skipti inn mönnum inn á þýska þingið í kosningunum haustið 2017, en hefur einnig náð inn mönnum á sambandsþingin um allt Þýskaland.
Endurkoma hjá Merz
Lögfræðingurinn Merz var þingflokksformaður Kristilegra demókrata á árunum 2000 til 2002. Hann hefur þó ekki verið áberandi síðustu árin og urðu margir undrandi þegar fréttir bárust af því að hann hugði á endurkomu í stjórnmálin. Hann hefur áður starfað í fjármálageiranum og tilheyrir íhaldssamari armi flokksins. Hann kemur frá Norðurrín-Vestfalíu.

