Erlent

Ekkert saknæmt við andlát Dante

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Dante var tólf ára gamall og búsettur í Falkenberg.
Dante var tólf ára gamall og búsettur í Falkenberg.
Sænska lögreglan telur að hinn 12 ára gamli Dante, sem fannst látinn í vesturhluta landsins á föstudag, hafi drukknað. Lík hans fannst við orkuver í austanverðum Falkenberg eftir um þriggja sólarhringa leit.

Hvarf hans var upphaflega rannsakað sem mannrán og þegar lík hans fannst grunaði lögreglu að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Niðurstöður réttarmeinafræðinga, sem sænskir fjölmiðlar greindu frá í dag, benda þó til að svo hafi ekki verið. Dánarorsök Dante var drukknun - hræðilegar slysfarir.

Haft er eftir Ulla Brehm, talsmanni lögreglunnar í vestanverðri Svíþjóð, að búið sé að útiloka að nokkuð glæpsamlegt hafi átt sér stað í aðdraganda andlátsins. Sænskir miðlar greina að sama skapi frá því að aðstandendum Dante hafi verið gert viðvart þegar niðurstöður réttarmeinarfræðinganna lágu fyrir.

Nærsveitungar Dante hafa minnst hans á torgi í Falkenberg síðustu daga.TT
Drengurinn hvarf í heimabæ sínum Falkenberg á vesturströnd Svíþjóðar á þriðjudag. Lýst var eftir honum þegar drengurinn skilað sér ekki heim eftir að hafa farið út að ganga með fjölskylduhundinn. Hundurinn skilaði sér hins vegar einn heim.

Blásið var til umfangsmikillar leitar að Dante í kjölfarið þar sem lögregla, herinn, strandgæslan og fjölmargir sjálfboðaliðar, um þrjú þúsund talsins, tóku þátt.

Það var svo á föstudag sem tekin var ákvörðun um að minnka vatnsflæðið úr Herting-orkuverinu, með það fyrir augum að auðvelda leitina á árbökkum Ätran. Það bar sorglegan árangur síðdegis þegar leitarmenn gengu fram á lík Dante.

Faðir Dante skrifaði færslu á Facebook-síðu sína í gær þar sem hann lýsti hinni miklu sorg sem fylgdi andláti sonar síns. Hann nýtti jafnframt tækifærið og þakkaði þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu við leitina. Gríðarmikill samhugur er sagður hafa gripið heimabæ Dante, sem kveikt hafa á kertum til minningar um drenginn á aðaltorgi bæjarins.

Hér að neðan má sjá frétt Stöðvar 2 um minningarstundina þar sem rætt var við Íslending sem tók þátt í leitinni að Dante.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×