Viðskipti innlent

Framleiðni á Íslandi jókst um þriðjung með einu pennastriki

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Framleiðni á Íslandi var aukin um þriðjung með einu pennastriki þegar Hagstofa Íslands breytti útreikningum sínum um fjölda vinnustunda fyrr á þessu ári. Ísland er í flokki þeirra ríkja heims sem vinna fæstar vinnustundir ólíkt því sem áður var talið og framleiðni hér er ein sú hæsta meðal ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

Ísland er ekki í nýjum tölum OECD um vinnustundir  því Hagstofa Íslands birti fyrr á þessu ári nýtt mat á útreikningum vinnustunda og á OECD eftir að taka tillit til þess.

Í mati Hagstofunnar kemur fram að fjöldi vinnustunda á Íslandi sé 16-22 prósent lægri en áður var talið. Það skýrist meðal annars af því að einstaklingar hafi gefið upp of margar vinnustundir í úrtakskönnun vinnumarkaðsrannsóknar. Í því sambandi hafi verið bent á að hefðbundin 40 stunda vinnuvika sé í raun styttri vegna kjarasamningsbundinna réttinda. Þannig hafi menn tekið matartíma og hlé inn í fjölda vinnustunda.

Langur vinnudagur Íslendinga hefur lengi þótt vitnisburður um eljusemi og starfsþrótt en er hann kannski bara þjóðsaga? Og hvernig koma tölur um vinnustundir Íslendinga á grundvelli nýrra útreikninga Hagstofunnar út í samanburði við nýbirtar tölur OECD?

Ísland var með 1883 vinnustundir á ári miðað við eldri útreikninga og hefði því endað milli Ísraels og Póllands í fyrra. Útfrá leiðréttri aðferðafræði Hagstofunnar vinna Íslendingar um 1487 vinnustundir á ári og hefði það skilað Íslendingum á milli Hollands og Frakklands en aðeins fjögur ríki vinna færri stundir.

Það var Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, sem fyrstur greindi frá þessu á Twitter. 

Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir þetta gjörbreyta tölum um framleiðni hér á landi.

„Framleiðni vinnuafls á Íslandi er mun betri en áður var talið. Nýju tölurnar sýna um það bil 30 prósent meiri framleiðni á hverja vinnustund á Íslandi heldur en í fyrri birtum tölum OECD,“ segir Hannes.

Í raun jókst framleiðni á Íslandi með einu pennastriki þegar Hagstofan leiðrétti útreikning um fjölda vinnustunda.

„Frá því að vera undir meðaltali í alþjóðlegum samanburði þá er Ísland 20 prósent yfir meðaltalinu og orðið sambærilegt við Svíþjóð, hærra en Finnland og meðal efstu þjóða hvað framleiðni varðar,“ segir Hannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×