Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra vilja að Norður-Kórea losi sig alfarið við kjarnorkuvopn sín og að ekki verði slakað á viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum fyrr en það verði gert. Ríkisstjórn Kim hefur hins vegar viljað losna við hluta þvingana áður en þeir taka skref átt í afvopnun. Sérfræðingar segja þó ljóst að Kim sé enn sannfærður um að kjarnorkuvopn séu besta leiðin til að tryggja öryggi ríkisstjórnar sinnar til lengri tíma og til þess að þvinga heiminn að viðurkenna einræðið.
Starfsmenn bandarískrar hugveitu segjast hafa borið kennsl á minnst þrettán af þeim tuttugu eldflaugastöðvum sem talið er að séu í Norður-Kóreu. Um er að ræða herstöðvar þar sem langdrægar og skammdrægar eldflaugar eru þróaðar og er sömuleiðis hægt að skjóta þeim þaðan.
Hugveitan segir stöðvarnar hannaðar til þess að vera leynilegar og til þess að standa af sér fyrirbyggjandi árásir. Þar að auki hafi nýlegar endurbætur verið gerðar á herstöðvunum.
Fjölmiðlar ytra hafa sagt þessar fregnir til marks um að enn erfiðara verði að leysa deilurnar á Kóreuskaganum.
Cheong Wa Dae, talsmaður forseta Suður-Kóreu, sagði ekki rétt metið að túlka tilvist þessara stöðva sem einhverskonar leynimakk Norður-Kóreu. Einræðisríkið hefði enn ekki samþykkt að loka þessu stöðvum og rífa þær.
Aðrir viðmælendur Yonhap fréttaveitunnar benda á að skýrsla hugveitunnar byggi á myndum úr gervihnetti í eigu einkaaðila. Leyniþjónustur Bandaríkjanna og Suður-Kóreu hefðu aðgang að mun betri tækni og fylgdust náið með þessum stöðvum.
Viðræður hafa gengið illa
Áður en nokkurs konar afvopnun fer fram þarf Norður-Kórea að gefa upp hve mörg kjarnorkuvopn Kim situr á og jafnvel líka hve margar langdrægar eldflaugar hann á. Það hafa Kim-liðar alls ekki viljað gera.Samkomulagið sem Kim og Trump skrifuðu þótti einstaklega óljóst og samkvæmt því samþykktu þeir báðir að vinna að því að losa Kóreuskagann við kjarnorkuvopn. Samkomulagið fól engin tiltekin skref í sér og viðræður um áframhaldið hafa gengið illa.
Eins og áður segir þá vilja Bandaríkjamenn að Norður-Kórea taki einhver skref áður en létt verður á refsiaðgerðum og ríkisstjórn Kim vill létt á þvingunum áður en þeir taka skref í átt að afvopnun. Þeir hafa þó lofað því áður að hætta þróun kjarnorkuvopna í stað efnahagslegar hjálpar og hafa aldrei staðið við það.