Erlent

Fá mál sögð standa í vegi útgöngusamnings

Kjartan Kjartansson skrifar
Bretar ætla að ganga úr Evrópusambandinu í lok mars á næsta ári.
Bretar ætla að ganga úr Evrópusambandinu í lok mars á næsta ári. Vísir/EPA
Forsætisráðuneyti Bretlands segir að „fá mál“ standi nú í veg þess að Bretar og fulltrúar Evrópusambandsins nái sátt um útgöngusamning. Viðskiptaráðherrann segir hins vegar „erfiðar viðræður“ enn standa yfir um landamærin við Írland.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að Theresa May forsætisráðherra hafi gefið ríkisstjórn sinni skýrslu um stöðu viðræðnanna. Bjartsýni ríki beggja vegna samningsborðsins í Brussel. Aðeins „fá útistandandi mál“ séu eftir í tilraunum ríkisstjórnarinnar til þess að ná fram sem „bestum texta“ í samninginn.

Stærsta málið sem eftir stendur er hvernig landamærum Írlands, sem er í Evrópusambandinu, við Norður-Írland, sem er hluti Bretlands, verður háttað eftir útgönguna. Bæði Bretar og Evrópusambandið vilja forðast í lengstu lög að koma þurfi upp sjáanlegu landamæraeftirliti þar.

Liam Fox, viðskiptaráðherra Breta, er sagður hafa sagt samráðherrum sínum að enn væru erfiðar viðræður eftir við ESB um samband Írlands og Norður-Írlands.

Til stendur að halda sérstakan leiðtogafund síðar í þessum mánuði til þess að skrifa undir útgöngusamning. Fulltrúar ESB segja hins vegar að ekkert verði af fundinum nema að samkomulag náist um írsku landamærin áður.

Óljóst er hvort að May hefur stuðning þingsins, og eigin flokks, við samning við Evrópusambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×