Kínverski tæknirisinn ZTE þróaði svokölluð föðurlandskort sem ríkisstjórn Nicolas Maduro í Venesúela útbýtir um þessar mundir til ríkisborgara. Reuters greindi frá málinu og sagði að ZTE hefði fengið andvirði tæpra níu milljarða króna fyrir að gera svokallaðan föðurlandsgagnagrunn og greiðslukerfi fyrir kortin.
Föðurlandskortin nýtast til að kaupa niðurgreiddan mat af ríkinu, sækja heilbrigðisþjónustu og aðra félagslega þjónustu. Á þessa þjónustu þurfa Venesúelamenn að reiða sig vegna hamfarakennds efnahagsástands. Kortin hafa vakið áhyggjur. Eru þau álitin verkfæri til að fylgjast með lýðnum og sjá til þess að stuðningsmenn forseta fái mestu og bestu þjónustuna. – þea
Erlent