Innlent

Hin látnu voru gestkomandi í húsinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rannsakendur fóru inn í húsið á ellefta tímanum í morgun.
Rannsakendur fóru inn í húsið á ellefta tímanum í morgun. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Viðbragðsaðilar á vettvangi við Kirkjuveg á Selfossi fundu í morgun karl og konu sem fórust í eldsvoða í húsinu í gær. Fólkið var í kjölfarið flutt af vettvangi, að sögn Péturs Péturssonar, slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu. Bæði karlinn og konan voru gestkomandi í húsinu í gær og voru á fimmtugs- og sextugsaldri, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Pétur segir í samtali við Vísi að fólkið hafi fundist á efri hæð hússins í morgun. Í kjölfarið hafi vettvangurinn verið afhentur lögreglu. Hann segir að viðbragðsaðilar hafi frá upphafi haft sterkar vísbendingar um hvar fólkið væri í húsinu. Þá voru síðustu slökkviliðsmennirnir kallaðir af vettvangi nú skömmu eftir hádegi en þeir höfðu verið þar að störfum síðan í nótt.

Eldur kom upp í húsinu við Kirkjuveg á fjórða tímanum í gær. Húsráðandi og gestkomandi kona voru handtekinn á vettvangi í gær vegna brunans en skýrslutaka yfir þeim hófst nú fyrir hádegi. Lögregla hefur ekki viljað gefa upp hvort hin handteknu séu grunuð um eitthvað í tengslum við brunanna en ákveðið verður síðdegis í dag hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Greint var frá því á Vísi í morgun að fólkið hefði áður komið við sögu lögreglu.

Frá vettvangi í morgun áður en rannsakendur fóru inn í húsið.Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Rannsókn heldur áfram á vettvangi í dag en tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi og fulltrúar frá Mannvirkjastofnun fóru inn í húsið á ellefta tímanum.

Slökkvilið afhenti lögreglu ekki vettvang fyrr en í morgun á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Allt kapp var lagt á að vernda fólkið og húsið til þess að spilla ekki gögnum málsins. Enn hefur ekkert verið gefið upp um eldsupptök.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×