Innlent

Úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald vegna brunans

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögregla telur að eldurinn hafi kviknað af völdum manna.
Lögregla telur að eldurinn hafi kviknað af völdum manna. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í kvöld karl og konu í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna vegna rannsóknar á brunanum að Kirkjuvegi á Selfossi í gær. Tvennt fórst í brunanum en lögreglan telur að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum. Lögreglan á Suðurlandi tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni nú í kvöld.

Lögreglan telur rökstuddan grun um að eldsupptök séu af völdum manna. Karlinn er húsráðandi að Kirkjuvegi 18 en konan var gestkomandi þar þegar kviknaði í því. Skýrslur voru teknar af þeim í dag en það var ekki hægt í gær vegna ástands þeirra. Bæði eru þau sögð hafa komið við sögu lögreglu.

Greint var frá nöfnum fólksins sem fórst í brunanum í dag. Konan hét Kristrún Sæbjörnsdóttir, fædd árið 1971 og búsett í Reykjavík. Kristrún lætur eftir sig þrjá syni. Karlmaðurinn sem lést hét Guðmundur Bárðarson, fæddur árið 1969 og búsettur á Selfossi. Guðmundur var ókvæntur og barnlaus. Bæði voru þau gestkomandi í húsinu.


Tengdar fréttir

Hin látnu voru gestkomandi í húsinu

Viðbragðsaðilar á vettvangi við Kirkjuveg á Selfossi fundu í morgun karl og konu sem fórust í eldsvoða í húsinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×