Innlent

Tvennt lést í eldsvoða og tvö í gæsluvarðhaldi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Tvö kerti loguðu í gærkvöldi framan við einbýlishúsið Kirkjuveg 18 á Selfossi.
Tvö kerti loguðu í gærkvöldi framan við einbýlishúsið Kirkjuveg 18 á Selfossi. Vísir/EgillA
Karl og kona létu lífið í eldsvoðanum á Kirkjuvegi 18 á Selfossi á miðvikudaginn. Þau fundust á efri hæð hússins í gær.

Karlmaður fæddur 1965, sem er húsráðandi, og kona fædd 1973, sem var einnig í húsinu, voru í gærkvöld bæði úrskurðuð í viku langt gæsluvarðhald. 

„Vinnu á vettvangi er lokið og húsið hefur verið afhent tryggingafélagi,“ sagði Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, við Fréttablaðið um kvöldmatarleytið í gær. Fyrr um daginn gerði lögregla kröfu um gæsluvarðhald yfir húsráðandanum á Kirkjuvegi 18 og konu sem var gestkomandi þar þegar eldurinn braust út. Orðið var við kröfunni sem byggð var á rannsóknarhagsmunum í Héraðsdómi Suðurlands á níunda tímanum í gærkvöldi.

Oddur vildi að svo komnu máli ekki gefa upp hvers menn hefðu orðið vísari. „Við höldum nokkuð þétt að okkur spilunum með efni rannsóknarinnar,“ sagði hann og vísaði í tilkynningur frá lögreglunni. Þar kom fram að grunur lék á íkveikju.

„Það er grunur um að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum,“ staðfesti Oddur. „Það er til rannsóknar hvernig það atvikaðist,“ svaraði hann aðspurður hvort talið sé eldurinn hafi komið upp fyrir slysni eða hvort kveikt hafi verið í af ásettu ráði. Enn fremur sagði yfirlögregluþjónninn aðspurður að engin játning lægi fyrir.



Konan sem lést hét Kristrún Sæbjörnsdóttir. Kristrún var fædd árið 1971 og var búsett í Reykjavík. Kristrún lætur eftir sig þrjá syni. Karlmaðurinn sem lést hét Guðmundur Bárðarson. Guðmundur var fæddur árið 1969 og var búsettur á Selfossi. Guðmundur var ókvæntur og barnlaus.Lögreglan á Suðurlandi.
Fram kom í viðtali Stöðvar 2 í gærkvöldi við æskufélaga og nágranna húsráðandans að þeir hefðu ræðst við þegar sá síðarnefndi kom út úr brennandi húsinu. Þá hafi húsráðandinn gefið tilteknar skýringar á því sem gerst hafði. Vildi nágranninn ekki gefa upp nánar hvað þeim fór á milli.

Oddur sagði karlmanninn sem sé í haldi vera húsráðanda. „Hin voru gestkomandi og búin að vera mismundandi lengi,“ sagði hann. „Ég held að orðið neyslufélagar sé rétta orðið,“ svaraði hann um tengsl fólksins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×