Innlent

Sjá fyrir mikinn mengunardag

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fólk er hvatt til að hvíla bílana í dag.
Fólk er hvatt til að hvíla bílana í dag. Fréttablaðið/Anton Brink
Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs verður líklega töluverður á höfuðborgarsvæðinu í dag ef marka má tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér í gær.

„Besta ráðið til að draga úr mengun er að hreyfa ekki bílinn,“ biðlar borgin til almennings. Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs hafi verið hár í gær samkvæmt mælingum í mælistöðinni við Grensásveg.

„Köfnunarefnisdíoxíðmengunin í borginni kemur frá útblæstri bifreiða og er mikil á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægviðri og frosti og umtalsverðar líkur á því að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk við Grensásveg,“ vara borgaryfirvöld við.

Vegna þess að líklegt sé að sama staða verði uppi í dag hvetji Reykjavíkurborg borgarbúa og alla sem geta breytt út af vananum til að hvíla bílinn á morgun. Fólk geti tekið strætó, gengið eða hjólað.

„Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum ættu að hvetja samborgara sína til að láta bílinn vera á morgun. Annars þarf fólk að forðast útivist og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×