Erlent

Eyðsluklóin í Harrods gengur laus að nýju

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Zamira Hajiyeva árið 2015.
Zamira Hajiyeva árið 2015. EAST2WEST NEWS
Konu að nafni Zamira Haiyeva, sem er fædd í Aserbaídsjan en býr nú á Bretlandseyjum, hefur verið sleppt úr haldi lögreglu gegn tryggingu eftir að hún var handtekin í Lundúnum í síðustu viku að beiðni yfirvalda í Azerbaídsjan.

Haiyeva var á dögunum gert að greina frá því hvernig hún hafði efni á að kaupa rándýra íbúð í Lundúnum, golfvöll í Berkskíri og eyða háum fjárhæðum í lúxusverslunarmiðstöðinni Harrods. Um var að ræða fyrsta mál sinnar tegundar á Bretlandseyjum en löggæsluyfirvöldum þar í landi áskotnuðust nýlega valdheimildir sem gera þeim kleift að krefja útlenska auðkýfinga um að greina frá uppruna auðæfa sinna.

Hajiyeva neitar því að peningarnir sem notaðir voru til að standa undir lúxuslífinu í Lundúnum hafi verið illa fengnir. 

Haiyeva var svo handtekin í síðustu viku að beiðni yfirvalda í Azerbaídsjan, sem vilja fá hana framselda til landsins þar sem hún er eftirlýst vegna gruns um fjárdrátt. Henni var hins vegar sleppt úr haldi í dag eftir að dómari hafnaði kröfu um gæsluvarðhald yfir henni fram að framsalsréttarhöldunum. Hajiyeva er því frjáls ferða sinna, en með takmörkunum þó. Hún má aðeins yfirgefa heimili sitt á milli 9 og 18 á daginn og þá ber henni að gefa sig fram við lögreglu á hverjum morgni.

Eiginmaður Haiyeva, Jahangir Hajiyev, var eitt sinn bankastjóri Alþjóðabanka Aserbaídsjan. Hann var árið 2016 dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir umfangsmikið fjármálamisferli, en tugir milljóna punda eru hreinlega sagðar hafa horfið úr hirslum bankans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×