Erlent

Telja sig hafa fundið lík drengsins sem leitað var að

Atli Ísleifsson skrifar
Dante var tólf ára gamall og búsettur í Falkenberg.
Dante var tólf ára gamall og búsettur í Falkenberg.
Lögregla í Svíþjóð telur sig hafa fundið lík Dante, tólf ára drengs með Downs-heilkenni, sem leitað hefur verið að í þrjá sólarhringa.

Leitin hefur verið mjög umfangsmikil þar sem lögregla, herinn, strandgæslan og fjölmargir sjálfboðaliðar, um þrjú þúsund talsins, hafa tekið þátt.

Drengurinn hvarf í heimabæ sínum Falkenberg á vesturströnd Svíþjóðar á þriðjudag. Lýst var eftir honum eftir að hann hafði ekki skilað sér heim eftir að hafa farið út að ganga með fjölskylduhundinn. Hundurinn skilaði sér hins vegar einn heim.

Fannst við orkuver í austurhluta bæjarins

Kafarar og sporhundar hafa verið notaðir við leitina. Fyrr í dag greindu sænskir fjölmiðlar frá því að gleraugu, sem talin voru Dante, hafi fundist.

Lík fannst við orkuver í Herting í austurhluta Falekberg síðdegis í dag og greindi lögregla frá því fyrir stundu að talið sé að það sé Dante.

Lögregla rannsakar enn málið sem mannrán en getur ekki fullyrt að brot hafi verið að ræða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×