Erlent

Carlsen í betri stöðu í fyrstu einvígisskákinni gegn Caruana

Heimir Már Pétursson skrifar
Magnus Carlsen heimsmeistari í skák er í betri stöðu í fyrstu einvígisskák sinni við bandaríska áskorandann Fabiano Caruana en skák þeirra stendur enn yfir.

Magnus Carlsen hefur haldið heimsmeistaratitlinum í skák í sjö ár eða allt frá því hann lagði Viswanathan Anand árið 2003. Nú mætir hann Bandaríkjamanninum Fabiano Caruana en það hefur ekki gerst frá því Sovétmennirnir Garry Kasparov og Anatoly Karpov mættust að tveir eru sterkustu skákmenn heims berjist um heimsmeistaratitilinn í skák.

Það var heimssögulegur viðburður þegar bandaríski áskorandinn Bobby Fisher lagði sovéska heimsmeistarann í skák, Boris Spassky, í Laugardalshöll sumarið 1972. Nú 46 árum síðar gæti Fabiano Caruana endurtekið leikinn á heimsmeistaramótinu í Lundúnum. Bandaríkjamaður hefur ekki att kappi við sitjandi heimsmeistara frá því Fisher fór heim með heimsmeistaratitilinn árið 1972. Caruana var ekki tilbúinn til að segjast næsti Fisher fyrir fyrstu skákina í dag.

„Ég held að það sé of snemmt að grípa til þess samanburðar. Það yrði kannski meira viðeigandi ef ég verð næsti heimsmeistari,“ sagði Caruana.

Carlsen hefur hins vegar fulla ástæðu til að vanmeta ekki andstæðing sinn að þessu sinni enda hefur hann teflt mun betur að undanförnu en heimsmeistarinn. Hann segist ekki hafa séð sjálfan sig sem tapara hingað til og ef hann gerði það eftir að hafa haldið titlinum í sjö ár væri eitthvað að.

„En ég veit að ef ég held áfram að leika eins og ég hef gert að undanförnu mun ég ekki bera sigur af hólmi. Þannig að ég verð að herða mig og ég hef fulla trú á að mér takist það,“ sagði Carlsen á sameiginlegum fréttamannafundi hans og Caruana.

Tvímenningarnir eru án nokkurs vafa sterkustu skákmenn heims í dag en geta engu að síður gert mistök.

„Magnús hefur enga augljósa veikleika. Venjulega eru mistökin sem hann gerir mjög persónuleg og ófyrirséð. Ég held að það eigi við um alla þá skákmenn sem eru allra efst á toppnum,“ sagði Caruana.

Fabiano byrjaði með hvítt í dag. Tefldar verða 12 skákir og sá sem fyrstur fær sex og hálfan vinning verður næsti heimsmeistari.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×