Erlent

Mannkyn valdið 60 prósent fækkunar dýra frá 1970

Atli Ísleifsson skrifar
Skýrsluhöfundar segja að útrýming villtra dýra sé nú komin á slíkt stig að hún ógni siðmenningunni.
Skýrsluhöfundar segja að útrýming villtra dýra sé nú komin á slíkt stig að hún ógni siðmenningunni. Getty/Jethuynh
Mannskepnan hefur þurrkað út sextíu prósent af öllum spendýrum, fuglum, fiskum og skriðdýrum frá árinu 1970. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu náttúruverndarsamtakanna World Wildlife Fund en hún er unnin af 59 vísindamönnum hvaðanæva að úr heiminum.

Skýrsluhöfundar segja að útrýming villtra dýra sé nú komin á slíkt stig að hún ógni siðmenningunni. Aðalorsökin er ásókn mannsins í ræktarland til að brauðfæða íbúa jarðar, sem fer sífellt fjölgandi og nýting náttúruauðlinda.

Mike Barrett, einn af stjórnendum samtakanna, segir að mannkynið sé hægt og rólega að ganga fyrir björg. Hann bendir á að ef mönnum á jörðinni myndi fækka um sextíu prósent, þá myndu Norður- og Suður Ameríka, Afríka, Evrópa, Kína og Eyjaálfa leggjast í eyði.

Verst í Mið- og Suður-Ameríku

Johan Rockström, prófessor við Potsdam loftslagsstofnunni í Þýskalandi, segir mannkyn vera að renna út á tíma. „Eina leiðin fyrir okkur til að standa vörð um stöðuga plánetu til að tryggja megi framtíð mannsins á jörðinni, er með því að bregðast við málum sem snúa að vistkerfum og loftslagi.“

Í frétt Guardian segir að ástandið sé verst í Mið- og Suður-Ameríu þar sem hryggdýrum hefur fækkað um 89 prósentum, fyrst og fremst vegna eyðingar skóga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×