Erlent

Sextán ára stúlka myrt af jafnaldra í Noregi

Atli Ísleifsson skrifar
Sextán ára piltur er í haldi lögreglunnar grunaður um verknaðinn. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Sextán ára piltur er í haldi lögreglunnar grunaður um verknaðinn. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty
Sextán ára stúlka lést og fullorðinn karlmaður særðist í hnífstunguárás við íbúðahús í bænum Vinstra í Noregi síðdegis í dag. Sextán ára piltur er í haldi lögreglunnar grunaður um verknaðinn.

Bærinn Vinstra er að finna um 80 kílómetrum norðvestur af Lillehammer og tilheyrir sveitarfélaginu Nord-Fron.

Pål Andersen hjá lögreglunni segir að tilkynning hafi borist frá sjónarvotti skömmu fyrir klukkan 16 að staðartíma. Árásin átti sér stað utandyra og var hinn grunaði handtekinn skammt frá árásarstaðnum.

Íbúar í Vinstra

Í frétt NRK er haft eftir lögreglu að ekki verði gefið upp um tengsl hinnar látnu og hins grunaða að svo stöddu. Bæði séu þó norskir ríkisborgarar og íbúar í Vinstra. Hvorugt þeirra hafi áður komið við sögu lögreglunnar.

Tæknimenn lögreglu eru nú á vettvangi og er lögregla með meint morðvopn í sinni vörslu.

Karlmaðurinn sem særðist ku ekki vera lífshættulega særður.

Rune Støstad, svetiarstjóri í Nord-Fron, segir að sérstakt áfallateymi hafi verið sent á vettvang til að aðstoða aðstandendur. „Þetta er mikill harmleikur sem snertir okkur djúpt. Hér þekkjast allir og þetta verður erfitt fyrir lítið samfélag eins og okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×