Erlent

Forstjóri CIA á leið til Tyrklands vegna morðsins á Khashoggi

Kjartan Kjartansson skrifar
Haspel forstjóri CIA. Bandaríska leyniþjónustan er sögð full efasemda um skýringar Sáda á hvernig dauða Khashoggi bar að.
Haspel forstjóri CIA. Bandaríska leyniþjónustan er sögð full efasemda um skýringar Sáda á hvernig dauða Khashoggi bar að. Vísir/EPA
Gina Haspel, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, er nú á leið til Tyrklands til að kynna sér rannsóknina á morðinu á Jamal Khashoggi. Varaforseti Bandaríkjanna segir að Bandaríkjastjórn muni ekki láta morðið óátalið.

Khashoggi, sádiarabískur blaðamaður sem hefur verið gagnrýninn á stjórnvöld í heimalandinu, var drepinn á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl 2. október. Tyrknesk yfirvöld viðruðu fljótlega grun um að Sádar hefur myrt Khashoggi.

Því höfnuðu stjórnvöld í Ríad hins vegar alfarið og héldu því fram að Khashoggi hefði yfirgefið ræðisskrifstofuna sama dag og hann kom þangað. Eftir því sem frekari sannanir komu fram sem sýndu fram á það andstæða viðurkenndu Sádar loks að Khashoggi hefði látist á ræðisskrifstounni. Það hefði hins vegar gerst óvart þegar til átaka kom á milli hans og hóps manna.

Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu sagði svo um helgina að Khashoggi hefði verið myrtur en þeir sem væru ábyrgir hefði gert það án leyfis eða skipana frá konungsfjölskyldu landsins.

Recep Erdogan, forseti Tyrklands, fullyrti í morgun að morðið á Khashoggi hefði verið skipulagt. Athygli vakti að Erdogan tók sérstaklega fram að hann tryði Salman Sádakonungi um að hann hefði ekki vitað af morðinu en minntist ekkert á Mohammed bin Salman krónprins sem hefur verið sterklega bendlaður við morðið.

Nokkrir úr hópi meintra morðingja Khashoggi sem ferðuðust frá Sádi-Arabíu til Istanbúl daginn sem hann var myrtur eru sagðir tengdir krónprinsinum.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.Vísir/Getty

Aðgerðir Bandaríkjanna í höndum Trump forseta

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, staðfesti í dag að Haspel hefði verið send til Tyrklands til að afla frekari upplýsinga um dauða Khashoggi. Bandaríkjastjórn hefur verið hikandi við að gagnrýna bandamenn sína í Sádi-Arabíu vegna morðsins.

Varaforsetinn sagði að dauði blaðamannsins myndi ekki „líða hjá án viðbragða frá Bandaríkjunum“ í viðtali á viðburði sem Washington Post stóð fyrir í dag. Hann lýsti þó ekki frekar hver viðbrögð Bandaríkjastjórnar gætu orðið.

Þegar Pence var spurður hver viðbrögðin yrðu kæmi í ljós að konungsfjölskylda Sádi-Arabíu væri meðsek í morðinu sagði varaforsetinn að það væri ákvörðun Donalds Trump forseta. Sú ákvörðun myndi endurspegla gildi og þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna og tryggja að „heimsbyggðin fengi að vita það sanna“.

Khashoggi var með dvalarleyfi í Bandaríkjunum og bjó í Virginíuríki, nærri Washington-borg. Skrifaði hann meðal annars pistla fyrir Washington Post.

Salah bin Jamal Khashoggi (t.v.) tekur í hönd Mohammeds bin Salman krónprins. Yfirvöld í Sádi-Arabíu eru sögð hafa haldið honum í farbanni frá því í fyrra.

Fregnir um að líkamsleifar Khashoggi hafi fundist

Salman konungur Sádi-Arabíu og Mohammed bin Salman krónprins tóku á móti tveimur sonum Khashoggi og vottuðu henni virðingu sína í konungshollunni í Ríad dag. AP-fréttastofan hefur eftir vin fjölskyldunnar að annar bræðranna hafi verið í farbanni í Sádi-Arabíu síðasta árið.

Viðskiptaráðstefna sem Sádar skipuleggja fór fram í dag þrátt fyrir að fjöldi alþjóðlegra stórfyrirtækja og erlendra embættismanna hefðu afboðað sig vegna morðsins á Khashoggi. Talið var að bin Salman krónprins hefði hætt við að koma fram á ráðstefnunni en þegar hann birtist óvænt þar eru gestir sagðir hafa veitt honum standandi lófaklapp.

Á sama tíma hafði Sky-fréttastöðin eftir heimildarmönnum sínum í Tyrklandi að líkamsleifar Khashoggi hefðu fundist í garði ræðismanns Sáda í Istanbúl. Líkið hefði verið bútað niður og andlitið hafi verið illa leikið.


Tengdar fréttir

Sádar margsaga vegna hvarfs blaðamanns

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu viðurkenndu um helgina að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hafi týnt lífi á skrifstofu ræðismanns ríkisins í Tyrklandi.

Einn árásarmanna Khashoggi sást í fötum hans

Tyrkneskir rannsakendur telja að manninum hafi verið ætlað að vera tálbeita fyrir Jamal Khashoggi, blaðamanninn sem var myrtur á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×