Erlent

Annar leiðtoga sænskra Græningja hættir næsta vor

Atli Ísleifsson skrifar
Gustav Fridolin og Isabella Lövin, talsmenn sænskra Græningja.
Gustav Fridolin og Isabella Lövin, talsmenn sænskra Græningja. Getty/MICHAEL CAMPANELLA
Gustav Fridolin, annar tveggja leiðtoga sænskra Græningja, tilkynnti í morgun að hann hyggst láta af embætti á landsfundi í maí næstkomandi. „Ég vil veita nýjum talsmanni eins mikinn tíma og hægt er til að byggja upp eigið lið með Isabellu Lövin fyrir næstu kosningar,“ segir Fridolin.

Flokkurinn er ekki með eiginlegan formann, heldur tvo „talsmenn“ þar sem annar skal vera karlmaður og hinn kona. Auk þess má talsmaður sitja í embætti í níu ár að hámarki. Fridolin tók við embættinu árið 2011, sem þýðir að hann mun hætta ári fyrr en hámarkstíminn í reglum flokksins kveður á um.

Í grein í Aftonbladet segist hann vonast til að fá meiri tíma til að vera sá faðir og maður sem hann vill vera. „Ég hlakka til að kenna á ný,“ en hann er menntaður kennari.

Erfitt kjörtímabil

Í talsmannstíð Fridolin tók flokkurinn í fyrsta skipti sæti í ríkisstjórn í Svíþjóð, en Græningjar og Jafnaðarmannaflokkurinn mynduðu saman ríkisstjórn eftir kosningarnar 2014. Fridolin hefur gegnt embætti menntamálaráðherra í ríkisstjórn Stefan Löfven, formanns Jafnaðarmanna, síðustu fjögur árin.

Þingkosningar fóru fram í Svíþjóð í september en síðasta kjörtímabil reyndist Fridolin og Græningjum erfitt. Flokkurinn missti mikið fylgi í kosningunum, hlaut 4,6 prósent og sextán þingmenn.

Mögulegir arftakar

Meðal þeirra sem hafa verið nefndir sem mögulegir arftakar Fridolin eru Per Bolund, ráðherra fjármálamarkaðar og neytendamála, þingflokksformaðurinn Jonas Eriksson og Evrópuþingmaðurinn Jakop Dalunde.

Isabella Lövin, hinn talsmaður Græningja, tók við embætti talsmanns flokksins árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×