Erlent

Puigdemont ýtti nýjum flokki úr vör

Atli Ísleifsson skrifar
Carles Puigdemont ávarpar stofnfund La Crida í Manresa.
Carles Puigdemont ávarpar stofnfund La Crida í Manresa. EPA/SUSANNA SAEZ
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti heimastjórnar Katalóníu, ýtti í dag úr vör nýjum stjórnmálaflokki, ári eftir misheppnaða tilraun katalónska þingsins að lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni.

Stofnfundur flokksins, sem ber nafnið La Crida, fór fram í borginni Manresa í Katalóníu í dag, en Puigdemont reynir nú að afla flokknum fylgis frá Belgíu þar sem hann dvelur í útlegð.

Erfiðlega hefur fengið að safna fylgjendum þar sem skoðanabræður Puigdemont eru margir í fangelsi, nálægt bænum Manresa, eða hafa kosið að feta hófsamari leið í stjórnmálunum.

Quim Torra, núverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, hefur neitað að ganga til liðs við flokkinn. „Síðasta árið hefur ekki þróast eins og við ætluðum okkur,“ sagði Torra til að minnast ársafmælisins. „En að snúa til baka er ekki valkostur.“

Spánarstjórn leysti upp héraðsþing Katalóníu í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar þingsins á síðasta ári. Puigdemont flúði og er nú í útlegð í Brussel. Hann stefnir að því að stofna sérstakt „lýðveldisráð“, gerð af útlagastjórn, til að safna liði til að gera aðra tilraun til að lýsa yfir sjálfstæði héraðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×