Erlent

Ákæra kínverskan njósnara

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá blaðamannafundi í gær þar sem ákærurnar voru tilkynntar. Herb Stapleton frá FBI er hér að tala og við hlið hans er Benjamin C. Glassman frá Dómsmálaráðuneytinu.
Frá blaðamannafundi í gær þar sem ákærurnar voru tilkynntar. Herb Stapleton frá FBI er hér að tala og við hlið hans er Benjamin C. Glassman frá Dómsmálaráðuneytinu. AP/John Minchillo
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákært kínverskan mann fyrir njósnir. Hann er meðal annars sakaður um að hafa reynt að stela iðnaðar- og ríkisleyndarmálum af flugvélaframleiðendum í Bandaríkjunum. Maðurinn, sem heitir Xu Yanjun, var plataður af útsendurum Alríkislögreglu Bandaríkjanna til að ferðast til Belgíu, þar sem hann var handtekinn og framseldur til Bandaríkjanna.

FBI segir ákæruna til marks um það að yfirvöld í Kína stundi með beinum hætti efnahagslegar njósnir í Bandaríkjunum. Yfirvöld Bandaríkjanna hafa gagnrýnt Kína harðlega fyrir njósnir sem þessar.

Þá segja sérfræðingar, samkvæmt Reuters, að málið sé enn ein vísbending um aukna hörku í viðskiptadeilum ríkjanna tveggja. Að undanförnu hafi litið út fyrir að Kínverjar hafi varið auknu púðri í efnahagslegar njósnir í Bandaríkjunum.



Njósnir Xu munu hafa snúist að stórum fyrirtækjum sem vinna fyrir yfirvöld Bandaríkjanna á ýmsum sviðum eins og í varnarmálum, netöryggi, hernaðarframleiðslu og framleiðslu dróna. Hann er sakaður um að hafa stundað njósnir gegn fyrirtækjunum frá því í desember 2013.

Síðan þá er Xu sagður hafa fengið sérfræðinga fyrirtækjanna til að starfa fyrir sig og til að ferðast til Kína.

Lu Kang, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, segir ásakanirnar gegn Xu vera tilbúning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×