Erlent

Búist við að Löfven fái umboð til stjórnarmyndunar

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven er leiðtogi Jafnaðarmanna. Hann vill mynda stjórn með Miðflokknum og Frjálslyndum.
Stefan Löfven er leiðtogi Jafnaðarmanna. Hann vill mynda stjórn með Miðflokknum og Frjálslyndum. Getty/MICHAEL CAMPANELLA
Búist er við að Stefan Löfven, leiðtogi sænskra Jafnaðarmanna og starfandi forsætisráðherra, fái umboð til stjórnarmyndunar í dag. Forseti sænska þingsins, Andreas Norlén, fundar í dag með leiðtogum allra flokka á sænska þinginu og mun í kjölfarið veita einhverjum þeirra umboð til að mynda nýja stjórn.

Norlén veitti Ulf Kristersson, leiðtoga hægriflokksins Moderaterna, umboð til stjórnarmyndunar fyrir tæpum tveimur vikum, en hann gekk á fund Norlén í gær þar sem hann tilkynnti að honum hafi mistekist að mynda stjórn sem meirihluti þingsins myndi verja vantrausti.

Vill samstarf þvert á blokkir

Eftir fund sinn með Norlén í morgun sagði Löfven að samstarf flokka úr bæði rauðgrænu blokkinni og bandalagi borgaralegu flokkanna yrði farsælasta lausnin fyrir land og þjóð. Þá sagði hann jafnframt að Jafnaðarmenn væri reiðubúnir til málamiðlana.

Löfven hefur áður sagt að Miðflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn, sem báðir tilheyra bandalagi borgaralegu flokkanna, séu vænlegir samstarfsflokkar fyrir Jafnaðarmannaflokkinn.

Bæði Löfven og Kristersson hafa útilokað myndun samsteypustjórn tveggja stærstu flokkanna, það er Jafnaðarmannaflokksins og Moderaterna.

Ulf Kristersson.Getty/Bloomberg
Kristersson mistókst

Kristersson tilkynnti gær að honum hafi, eftir viðræður við leiðtoga annarra flokka, ekki tekist að safna nægum stuðningi til myndunar stjórnar borgaralegu flokkanna fjögurra sem nyti stuðnings Jafnaðarmannaflokksins, stjórnar einungis Moderaterna eða stjórnar Moderaterna og Kristilegra demókrata. Miðflokkurinn og Frjálslyndir höfnuðu báðir síðustu tveimur kostunum.

Mjög flókin staða er uppi á sænska þinginu eftir kosningarnar sem fram fóru 9. september síðastliðinn. Rauðgrænu flokkanir hlutu 144 þingsæti, borgaralegu flokkarnir 143 og Svíþjóðardemókratar 62.


Tengdar fréttir

Lööf opnar á samstarf með Jafnaðarmönnum

Formaður Miðflokksins í Svíþjóð segir að leiðtogar flokka verði að byrja að ræða hver við annan til að hægt verði að mynda ríkisstjórn í landinu.

Hægriflokkurinn vill stýra einn

Illa gengur að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð nú þegar rúmur mánuður er liðinn frá kosningum. Leiðtogi stærsta flokks hægriblokkarinnar leggur til að flokkurinn myndi minnihlutastjórn einn síns liðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×