Erlent

Tyrkir fullyrða að lík Khashoggis hafi verið bútað niður

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Heimildir fréttastofu CNN herma að yfirvöld í Sádi-Arabíu ætli að axla ábyrgð á morðinu. Khashoggi hafi látist vegna yfirheyrslu sem á að hafa "gengið of langt“.
Heimildir fréttastofu CNN herma að yfirvöld í Sádi-Arabíu ætli að axla ábyrgð á morðinu. Khashoggi hafi látist vegna yfirheyrslu sem á að hafa "gengið of langt“. Vísir/AP
Líkið af blaðamanninum Jamal Khashoggi var bútað niður á ræðismannsskrifstofu Sádi Arabíu fyrir um tveimur vikum síðan. Þetta fullyrðir fulltrúi tyrknesku ríkisstjórnarinnar í samtali við fréttastofu CNN.

Hópur tyrkneskra rannsóknarlögreglumanna hefur á síðasta sólarhringi gert ítarlega leit á ræðismannsskrifstofunni þar sem talið er að blaðamaðurinn hafi verið myrtur.

Mikið hefur verið þrýst á yfirvöld í Sádi-Arabíu og þess krafist að þau greini frá því hvað varð um blaðamanninn. Þjóðarleiðtogar hafa jafnframt krafist svara.

Heimildir fréttastofu CNN herma að yfirvöld í Sádi-Arabíu ætli að axla ábyrgð á morðinu. Khashoggi hafi látist vegna yfirheyrslu sem á að hafa „gengið of langt“.

Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, segir að hópur tyrkneskra rannsóknarlögreglumanna beini sjónum sínum að eiturefni sem fannst á ræðismannaskrifstofunni. Þá hafi verið rannsakað hvort hinir grunuðu hafi með einhverjum hætti átt við vettvang hins meinta glæps.



Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mika Pompeo, kom til höfuðborgar Sádi-Arabíu, Ríad, í morgun og ræddi við Salman konung um hvarfið.

Khashoggi var pistlahöfundur á Washington Post en í skrifum sínum hafði hann í frammi gagnrýni á stjórnarhætti í heimalandi sínu. Hann var í sjálfskipaðri útlegð í Washington í Bandaríkjunum undanfarið ár af ótta við ofsóknir og ofbeldi yfirvalda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×