Viðskipti innlent

Fengu skattskrár allra Íslendinga frá ríkisskattstjóra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tekjur.is var hleypt af stokkunum á föstudag.
Tekjur.is var hleypt af stokkunum á föstudag. Tekjur.is
Tekjur.is fengu eintak af skattskrá allra Íslendinga frá ríkisskattstjóra í sumar. Fengu þeir sem standa að baki síðunni skrárnar afhentar á pappír sem þeir færðu síðan yfir á rafrænt form. Þegar því var lokið skiluðu þeim skránum svo aftur til ríkisskattstjóra.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag og vísað í svar Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns Tekjur.is, við fyrirspurn blaðsins.

Vefsíðan Tekjur.is opnaði á föstudag en á síðunni eru birtar upplýsingar um launa- og fjármagnstekjur allra Íslendinga átján ára og eldri. Viskubrunnur ehf. er rekstraraðili síðunnar en Jón R. Arnarson er stjórnarformaður þess félags. Hægt er að fletta upp á síðunni gegn greiðslu áskriftargjalds. 

Jón R. Arnarson er stjórnarformaður Viskubrunns ehf.Aðsend
Skiptar skoðanir eru um ágæti síðunnar þar sem meðal annars forkólfar í verkalýðshreyfingunni hafa fagnað tilkomu hennar en aðrir telja hana ekki í samræmi við lög.

Þannig hefur Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, krafist lögbanns á síðuna en krafan byggir á því að Tekjur.is brjóti á friðhelgi einkalífs, lögum um persónuvernd og hvernig eigi að vinna með persónuupplýsingar. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur enn ekki tekið afstöðu til kröfunnar.

Að því er fram kemur í Morgunblaðinu vill Vilhjálmur ekki gefa það upp hversu margir hafa keypt áskrift að síðunni og sagði það vera trúnaðarmál.


Tengdar fréttir

Krefst lögbanns á Tekjur.is

Ingvar Smári Birgisson, lögfræðingur og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, gerði í hádeginu kröfu um lögbann á vefinn Tekjur.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×