Ráðherra sameiningarmála í Suður-Kóreu telur stjórnvöld í Norður-Kóreu búa yfir milli tuttugu og sextíu kjarnavopnum. Frá þessu greindi ráðherrann Cho Myoung-gyon, í svari til suður-kóreska þingsins í dag.
AP greinir frá því að þetta sé í fyrsta sinn sem Suður-Kóreustjórn lýsir opinberlega yfir fjölda áætlaðra sprengja norðanmanna.
Ráðherrann segir að Suður-Kórea muni ekki samþykkja Norður-Kóreu sem kjarnorkuveldi, en leyniþjónusta Suður-Kóreu hefur ekki viljað tjá sig um orð ráðherrans.
Ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur áður áætlað að Norður-Kóreumenn séu með um fimmtíu kíló af plútóni til sprengjugerðar. Það magn gefur möguleika á gerð átta sprengjuodda.
Í frétt DR segir að vísindamenn frá Stanford háskóla, sem heimsóttu kjarnorkutilraunastöðina Nyongbyon árið 2010 áætluðu fyrr í ár að Norður-Kóreumenn búi yfir milli 250 og 500 kílóum af auðguðu úrani, sem myndi duga í framleiðslu á 25 til 30 kjarnavopnum.

