Viðskipti innlent

Hlutafé Cintamani aukið um 300 milljónir

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Kristinn Már Gunnarsson, stærsti eigandi Cintamani.
Kristinn Már Gunnarsson, stærsti eigandi Cintamani.
Cintamani tapaði tæplega 127 milljónum króna á síðasta ári, samkvæmt nýbirtum ársreikningi fataframleiðandans, borið saman við 13 milljóna króna hagnað árið áður.

Hlutafé félagsins var jafnframt aukið um 300 milljónir króna á þessu ári, að því er fram kemur í ársreikningnum, og þá hefur rekstrarlán félagsins upp á 150 milljónir króna, sem var gjaldfallið í lok síðasta árs, verið framlengt til september á næsta ári.

Rekstrartekjur Cintamani námu 757 milljónum króna á síðasta ári og drógust saman um fimmtung frá fyrra ári þegar þær námu 949 milljónum króna. Þá voru rekstrargjöldin 837 milljónir króna í fyrra og lækkuðu um 2,8 prósent á milli ára.

Kristinn Már Gunnarsson á 70 prósenta hlut í framleiðandanum og Frumtak 30 prósenta hlut.

Eins og Markaðurinn greindi frá var félagið sett í söluferli á fyrri hluta síðasta árs en hætt var við söluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×