Körfubolti

Kristófer sneri sig á ökkla

Hjörvar Ólafsson skrifar
Kristófer í leik með íslenska landsliðinu.
Kristófer í leik með íslenska landsliðinu. Fréttablaðið/Anton
Kristófer Acox, landsliðsmaður í körfubolta, hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann kom til franska B-deildarliðsins Denain Voltaire í sumar.

Hann hefur glímt við veikindi í maga undanfarna viku. Eftir að hafa hrist magakveisuna af sér mætti hann á æfingu með liðinu í gær og sneri sig þar illa á ökkla. Kristófer er ekki brotinn en hlaut slæma tognun og er bæði marinn og illa bólginn.

Hann verður frá næstu þrjár vikurnar vegna þessara meiðsla og missir af leikjum liðsins í riðlakeppni í franska bikarnum sem fram fara á föstudaginn og þriðjudaginn.

Þá missir hann af fyrsta deildarleik liðsins sem leikur í frönsku B-deildinni en stefnir á að vera orðinn klár í tæka tíð fyrir annan deildarleik liðsins þar á eftir.

Kristófer, sem er 24 ára, varð Íslandsmeistari með KR á síðasta tímabili. Hann var bæði valinn besti leikmaður Domino’s deildarinnar og besti leikmaður úrslitakeppninnar. Eftir tímabilið ákvað hann að reyna fyrir sér í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×