Erlent

Telja að lík blaðamannsins hafi verið bútað niður og flutt á brott

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ekkert hefur spurst til Jamals Khashoggi, blaðamann frá Sádí-Arabíu frá því hann heimsótti ræðisskrifstofu heimalands síns síðasta þriðjudag. Hann hefur undanfarið ár verið í sjálfskipaðri útlegð í Washington af ótta við ofsóknir yfirvalda.
Ekkert hefur spurst til Jamals Khashoggi, blaðamann frá Sádí-Arabíu frá því hann heimsótti ræðisskrifstofu heimalands síns síðasta þriðjudag. Hann hefur undanfarið ár verið í sjálfskipaðri útlegð í Washington af ótta við ofsóknir yfirvalda. Vísir/AP
Talsmaður tyrknesku ríkisstjórnarinnar sagðist telja líklegt að fimmtán Sádi-Arabar hefðu pyntað blaðamanninn Jamal Khashoggi á ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl á þriðjudag. Líklega hefðu þeir bútað niður líkið af blaðamanninum og flutt á brott en þetta eru óstaðfestar heimildir Reuters og Washington Post.

Recep Tayyp Erdogan greindi frá því í dag í yfirlýsingu að hann fylgist grannt með gangi mála. Lögregluteymi vinni að því að gaumgæfa myndbandsupptökur og gögn frá flugvöllum í tengslum við hvarf Khashoggis en blaðamaðurinn átti erindi á ræðisskrifstofuna á þriðjudag en ekkert hefur spurst til hans síðan.

Yasin Aktai, ráðgjafi Erdogans, greindi fréttastofu Reuters frá því að Khashoggi hefði verið ráðinn af dögum. Yfirvöld í Tyrklandi segjast hafa sannanir fyrir því að Khasoggi hafi verið ráðinn af dögum.

Heimildir Guardian herma að fimmtán Sádi-Arabar, sem taldir eru hafa framið ódæðið, hafi komið til landsins á þriðjudag sérstaklega til að ráða Khashoggi af dögum. Þeir hafi síðan farið frá Sádí-Arabíu samdægurs. Tyrknesk yfirvöld telja fullvíst Khashoggi hafi verið myrtur af yfirlögðu ráði. Yfirvöld í Sádi-Arabíu segja að ásakanirnar eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

Khashoggi var pistlahöfundur á Washington Post þar sem hann hafði í frammi gagnrýni á stjórnarhætti í heimalandi sínu. Hann hafði verið í sjálfskipaðri útlegð í Washingon undanfarið ár af ótta við ofsóknir og ofbeldi yfirvalda.

Hér er hægt að lesa pistlana sem Khashoggi skrifaði fyrir Washington Post.


Tengdar fréttir

Erdogan fylgist náið með máli blaðamannsins

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segist hafa verið farinn að fylgjast með máli blaðamannsins Jamal Khashoggi þegar fréttir þess efnis að hann hefði verið myrtur voru birtar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×