Þegar annað landsleikjahlé tímabilsins gengur í garð er Chelsea í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig, jafn mörg og topplið Manchester City en lakari markatölu.
Chelsea bar sigurorð af Southampton í gær, 0-3, og hefur unnið sex af fyrstu átta deildarleikjum sínum og gert tvö jafntefli. Þá er Chelsea komið áfram í 4. umferð enska deildabikarsins og búið að vinna báða leiki sína í Evrópudeildinni. Maurizio Sarri, nýr knattspyrnustjóri Chelsea, hefði ekki getað óskað sér betri byrjunar, sérstaklega þegar hann er að umbreyta leikstíl liðsins.
„Við spiluðum boltanum hratt á milli okkar. Hver leikmaður tók í mesta lagi tvær snertingar og við áttum auðvelt með að koma okkur í færi. Ég held að þetta sé minn fótbolti,“ sagði Sarri eftir sigurinn á velli heilagrar Maríu í gær.
Verst geymda leyndarmál fótboltans var opinberað þegar Sarri var ráðinn stjóri Chelsea þann 14. júlí í stað landa síns, Antonio Conte. Sarri kom til Chelsea eftir þrjú ár við stjórnvölinn hjá Napoli. Undir stjórn Sarri endaði Napoli tvisvar í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar og einu sinni í því þriðja. Síðasta tímabil var frábært hjá Napoli. Liðið vann 28 af 38 deildarleikjum sínum og fékk 91 stig. Þessi stigafjöldi hefði oftast dugað til að vinna meistaratitilinn en hann var áfram hjá Juventus sem vann hann sjöunda árið í röð.
Bakgrunnur Sarri er nokkuð sérstakur. Hann átti ekki merkilegan feril sem leikmaður og lék aðeins sem áhugamaður. Hann byrjaði að þjálfa 1990 og gerði það meðfram starfi sínu í banka í Toskana. Hann vann í alþjóðadeild bankans en eftir að evran kom til sögunnar var minna að gera fyrir menn eins og hann. Sarri hætti því í bankanum skömmu eftir aldamótin og einbeitti sér alfarið að þjálfun.
Stóra tækifærið kom þegar hann var ráðinn stjóri Empoli 2012. Tveimur árum síðar kom Sarri liðinu upp í ítölsku úrvalsdeildina. Þá var hann 55 ára. Empoli bjargaði sér frá falli tímabilið 2014-15 og eftir það var Sarri ráðinn til Napoli.
Þótt Napoli hafi ekki unnið titil undir stjórn hins keðjureykjandi Sarri eignaðist liðið marga aðdáendur sökum áferðarfagurs fótbolta og skemmtilegrar spilamennsku. Einn af aðdáendum leikstíls Sarri var Roman Abramovich, eigandi Chelsea, sem ákvað að gera hann að næsta stjóra ensku bikarmeistaranna. Abramovich hefur lengi verið á höttunum eftir Pep Guardiola en aldrei tekist að klófesta spænska stjórann. Hann réð því þann stjóra sem kemst næst því að bjóða upp á svipaðan fótbolta og Guardiola.
Spánverjinn er mikill aðdáandi Sarri og hefur margoft hrósað honum opinberlega. Og virðingin er gagnkvæm. Líkt og Guardiola leggur Sarri áherslu á að lið sín haldi boltanum, spili út frá markverði og taki frumkvæðið í leikjum. Það þarf ekki að koma á óvart að Manchester City og Chelsea séu þau lið sem eru mest með boltann í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Að meðaltali er Chelsea 62,7 prósent með boltann í leik. Á síðasta tímabili var sú tala 54,4 prósent.
Lykilmaðurinn í þessari umbyltingu á leikstíl Chelsea er ítalski landsliðsmaðurinn Jorginho sem Sarri tók með sér frá Napoli. Hann leikur fyrir framan vörn Chelsea og allt spil liðsins fer í gegnum hann. Jorginho hefur gefið 853 sendingar í fyrstu átta leikjum tímabilsins, langflestar allra leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar. Hann fer ekki hratt yfir en er frábær með boltann og kemur honum nær undantekningarlaust á samherja.
Líkt og City pressar Chelsea andstæðinga sína hátt uppi á vellinum og reynir að vinna boltann eins fljótt og mögulegt er eftir að hann tapast. Varnarleikur Chelsea hefur verið nokkuð góður á tímabilinu og liðið aðeins fengið á sig fimm mörk í fyrstu átta deildarleikjunum.
Framherjar Chelsea, Álvaro Morata og Olivier Giroud, hafa aðeins skorað tvö mörk samtals í ensku úrvalsdeildinni. Það hefur þó ekki komið að sök því Eden Hazard hefur verið sjóðheitur í haust.
Belginn var sterklega orðaður við Real Madrid eftir HM í Rússlandi en ekkert varð af þeim vistaskiptum. Hazard skoraði fyrsta mark Chelsea í sigrinum á Southampton en það var hans sjöunda deildarmark á tímabilinu. Hann er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni. Hazard hefur aldrei skorað meira en 16 mörk á einu tímabili en ef hann heldur áfram á sömu braut fer hann yfir 20 mörkin.
Enski boltinn