Erlent

Klettótt auðn á yfirborði smástirnisins Ryugu

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Þessi mynd er tekin af A1 á yfirborði smástirnisins Ryugu.
Þessi mynd er tekin af A1 á yfirborði smástirnisins Ryugu. Mynd/jaxa
Japanska geimferðastofnunin (JAXA) hefur birt einstakar myndir sem könnunarför stofnunarinnar tóku af yfirborði smástirnisins Ryugu. Á myndunum, sem eru með þeim fyrstu sem mannkyn hefur tekið af yfirborði smástirnis, blasir við hrjúf og klettótt auðn.

Könnunarförin lentu á Ryugu í síðustu viku eftir þriggja og hálfs árs ferðalag um borð í móðurskipi sínu, geimfarinu Hayabusa 2. JAXA hefur nú staðfest að bæði förin, vélmennin A1 og 1B, eru starfhæf eftir þann hamagang sem var í lendingunni.

Smástirnið er 900 metra breitt og tilheyrir flokki smástirna sem eiga rætur að rekja til árdaga sólkerfisins.

A1 og 1B munu mæla hitastig smástirnisins ásamt því að taka ítarlegar myndir af yfirborði þess. Hönnun faranna þykir einkar athyglisverð. Þau eru í kringum eitt kíló að þyngd og ferðast milli staða með því að hoppa en til þess nýta þau máttlítið þyngdarafl smástirnisins.

Ryugu er á sporbraut um Sólina og er í um 140 til 210 milljóna kílómetra fjarlægð frá Jörðinni. Það tekur smástirnið 16 mánuði að hringa Sólina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×