Hópur unglinga í Colorado í Bandaríkjunum lét gabbast af öryggisráðstöfunum maríjuanabúðar þegar þeir stálu oreganó-kryddi, en unglingarnir höfðu ætlað sér að stela marijúana.
Forsaga málsins er sú að unglingarnir stálu sendiferðabíl og óku honum inn í Native Roots búðina, sem er eins og áður sagði marijúana búð í Colorado. Þegar inn var komið létu unglingarnir greipar sópa um sýningarborð búðarinnar, sem þau töldu vera fullt af marijúana.
Annað kom þó á daginn en aðstandendur búðarinnar vildu gæta fyllstu varúðar við uppsetningu sýnishorna og notast þess vegna við oreganó-krydd í stað raunverulegs marijúana, sem geymt er annars staðar í búðinni, á öruggum stað.
Talskona búðarinnar sagði unglingana hafa numið á brott þó nokkurt magn handvafinna sígaretta sem allar innihéldu oreganó, en erfitt getur reynst að finna til nokkurrar vímu við neyslu á kryddinu vinsæla. Tjónið sem hópurinn olli á búðinni er þó talið hlaupa á hundruðum þúsunda króna.
