Sport

Togaði í bremsu andstæðings á 225 kílómetra hraða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romano Fenati.
Romano Fenati. Vísir/Getty
Ítalski mótorhjólakappinn Romano Fenati var rekinn eftir stórhættulegt háttalag sitt í heimsbikarnum á Moto2 hjólum um helgina.

Romano Fenati hafði fengið svarta flaggið í keppninni sjálfri en lífshættuleg hegðun hans hefur nú heldur betur dregið dilk á eftir sér.

Marinelli Snipers Moto2 liðið lét Fenati taka pokann sinn og þá dugði ekkert til þótt að Romano Fenati hafi beðið alla afsökunar á hegðun sinni.





Það gekk mikið á í baráttu Romano Fenati við Stefano Manzi í keppni í San Marinó í gær en það afsakaði þó ekki það þegar að Fenati tók í bremsuna á hjóli andstæðingsins síns þegar þeir voru á 225 kílómetra hraða.

Fenati hafði þegar fengið tveggja keppna bann fyrir þetta ljóta brot en félagið gerði gott betur og gerði hann atvinnulausan líka.

„Við getum staðfest það að Marinelli Snipers liðið hefur sagt upp samningi sínum við Romano Fenati fyrir hans óíþróttamannslegu og stórhættulegu framkomu sem skaðar ímynd okkar allra,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu frá félaginu.

Það má líka sjá atvikið hér fyrir neðan.

Fenati sjálfur hafði beðist afsöskunar í dag. „Nú þegar þegar ég get hugsað skýrt þá myndi ég helst óska þess að þetta hafi bara verið slæmur draumur,“ sagði Romano Fenati.

„Ég hagaði mér skammarlega og ég var ekki manneskja á þessum tímapunkti. Öll gagnrýnin á rétt á sér og ég skil vel alla gremjuna og vanþóknuna út í mig. Ég vil biðja alla afsökunar, alla þá sem trúðu á mig og alla þá sem ég særði með hegðun minni,“ sagði Romano Fenati. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×