Innlent

Mölvaði hurð í Reykjanesbæ

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr Reykjanesbæ.
Úr Reykjanesbæ. Vísir/GVA
Tæplega þrítugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir húsbrot og eignaspjöll í Reykjanesbæ. Maðurinn er búsettur erlendis og ekki íslenskur.

Atvikið sem ákært er fyrir átti sér stað aðfaranótt 2. september. Ákærða er gefið að sök að hafa farið inn um ólæstar dyr í hús í óleyfi meðan íbúar voru sofandi. Þar lagðist hann í sófa. Þegar húsráðandi varð var við hann krafðist hann þess að maðurinn yfirgæfi húsið. Maðurinn tók því illa og reyndi að komast aftur inn en án árangurs. Kastaði hann þá öskubakka í útidyrnar með þeim afleiðingum að gler mölbrotnaði. Viðgerð kostaði rúmar 60 þúsund krónur.

Þess er krafist að maðurinn mæti í fyrirtöku málsins 9. október. Mæti hann eigi verður fjarvist hans metin til jafns við að hann viðurkenni brot það sem ákært er fyrir og verður þá lagður á það dómur að honum fjarstöddum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×