Allt frá útgáfu Windows 10 hefur bandaríski tæknirisinn Microsoft hvatt neytendur til þess að prófa nýja vafrann sinn, Microsoft Edge. Vafrinn var gefinn út eftir að fyrri vafri fyrirtækisins, Internet Explorer, missti nærri alla markaðshlutdeild. Fyrst að hluta til Mozilla Firefox og svo að nær öllu leyti til Google Chrome, ráðandi vafra á markaði í dag.
Sem dæmi um þessa hvatningu Microsoft til Edge-notkunar má nefna það að stillingar um sjálfgefinn vafra hafa átt það til að endurstillast yfir á Edge eftir stýrikerfisuppfærslur, auglýsingar á lásskjám og í möppum og svo venjulegar auglýsingaherferðir á netinu og í fjölmiðlum.
Tækniáhugamönnum hefur þótt þessi mikla hvatning eiga meira skylt við þrýsting eða einfaldlega ýtni. Tæknisíðan Thurrott greindi svo frá því í gær að nú sé Microsoft einfaldlega farið að vara við notkun annarra vafra. Þegar blaðamaður Thurrott reyndi að hlaða niður Google Chrome spratt gluggi upp sem í stóð: „Þú ert nú þegar með Microsoft Edge, hraðari og öruggari vafra fyrir Windows 10.“
Blaðamanninum var þá boðið upp á annaðhvort að opna Edge eða að hlaða niður Chrome sem og upp á að „sleppa frekari viðvörunum í framtíðinni“.
„Chrome er ekki vírus. Það er engin gild ástæða fyrir því að Microsoft VARI mig við því að hlaða Chrome niður. Og þessi notkun orðanna „að vara við“ kemur frá Microsoft en ekki mér.“
Manchester City
Chelsea