Innlent

Karl Gauti telur fasteignagjöld af sumarbústöðum íþyngjandi

Jakob Bjarnar skrifar
Karl Gauti í Flokki fólksins er áhugasamur um vegakerfi landsins og fasteignagjöld sumarbústaðaeigenda.
Karl Gauti í Flokki fólksins er áhugasamur um vegakerfi landsins og fasteignagjöld sumarbústaðaeigenda. Skjáskot úr frétt
Karl Gauti Hjaltason Flokki fólksins, þingmaður Suðurlands, spurði Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra sérstaklega út í gjöld af sumarbústöðum í fyrirspurnartíma um fjárlög nú fyrir stundu. Sem hann telur of há.

Karl Gauti, sem hefur lagt mikla áherslu að gefa þurfi verulega í varðandi vegakerfi landsins og fjallaði um það í ræðu sinni í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í vikunni, beindi fyrirspurn til Sigurðar Inga varðandi sumarbústaði. Hann sagði það geta reynst verulega íþyngjandi fyrir marga sem eiga sumarhús, sælureiti fyrir sig og fjölskyldur sínar, að greiða fasteignagjöld af þeim. Hann spurði ráðherra hvort til stæði að endurskoða lög um sumarbústaðina?

Samgönguráðherra sagði í svari sínu þingmenn Flokks fólksins hafa spurt um þetta áður og þá ekki verið ánægðir með svör hans. Sem væru þau hin sömu nú og þá; málaflokkurinn væri á könnu sveitafélaga, fasteignagjöld á viðkomandi svæði væru einn tekjustofn þeirra. Vissulega gæti það verið íþyngjandi fyrir fólk þegar sumarbústaðir þeirra færu verulega upp í verði, þá er varðar fasteignagjöld en það gæti engu að síður verið gott fyrir það einnig, ef þau vildu selja.

Samkvæmt hagsmunaskráningu þingmanna á Karl Gauti einmitt í sumarhúsi og land í Hemru, Skaftárhreppi, þannig að hann þekkir vel til vandans sem blasir við sumarhúsaeigendum í því sem snýr að fasteignagjöldum.

Umræður um fjárlög eru nú yfirstandandi á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×