Erlent

Kafarinn lögsækir Musk vegna barnaníðsummæla

Andri Eysteinsson skrifar
Vern Unsworth er breskur hellakafari og verðbréfamiðlari. Hann hefur verið búsettur í Tælandi um árabil.
Vern Unsworth er breskur hellakafari og verðbréfamiðlari. Hann hefur verið búsettur í Tælandi um árabil. Vísir/EPA
Breski kafarinn Vernon Unsworth, sem Elon Musk, forstjóri Tesla Motors, vændi um barnaníð í sumar hefur nú ákært Musk fyrir meiðyrði. Independent greinir frá.

Unsworth var meðal þeirra sem stóðu að björgun fótboltastrákanna 12 og þjálfara þeirra úr Chiang Rai hellunum í Taílandi í sumar.

Kafarinn hafði gagnrýnt áform Musk um að senda smákafbát á staðinn í þeim tilgangi að aðstoða við björgun drengjanna, í samtali við CNN sagði Unsworth kafbátinn vera ekkert nema kynningarbrella og engar líkur væru á að áform Musk myndu ganga.

Suður-Afríkumaðurinn Musk kallaði kafarann barnaníðing í endurteknum færslum sínum á Twitter. Musk baðst afsökunar á ummælunum en tók upp þráðinn aftur í ágúst.

Þá sendi Musk blaðamönnum Buzzfeed tölvupóst þar sem hann hélt því aftur fram að Unsworth væri barnanauðgari sem hefði flust búferlum til Taílands í þeim tilgangi að giftast tólf ára gamalli tælenskri stúlku. Ekki hefur verið sýnt fram á að ásakanirnar hafi eitthvað sannleiksgildi.

Nú hefur kafarinn ákveðið að lögsækja Musk. Í yfirlýsingu frá lögfræðingi Unsworth, Lin Wood, segir: „Elon Musk sakaði Vern Unsworth ranglega um að hafa framið hræðilega glæpi, ríkidæmi og áhrif Musk mega hvorki gera lygar hans að sannleik né verja hann frá réttlætinu“.


Tengdar fréttir

Musk heldur barnaníðsásökunum á hendur kafaranum til streitu

Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX, virðist enn vera á þeirri skoðun að kafarinn Vern Unsworth, einn af þeim sem kom að björgunaraðgerðum í Taílandi í sumar þegar fótboltalið festist inn í helli, sé barnaníðingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×