Innlent

Vill halda rakarastofuráðstefnu um traust á stjórnmálum

Sveinn Arnarsson skrifar
Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær.
Frá fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR
„Það kviknuðu margar spurningar við lestur skýrslunnar og við fengum að ræða þetta og viðra okkar sjónarmið. Þetta er einstaklega þarft og áhugavert viðfangsefni,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Nefndin fékk í gær kynningu á skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

„Forsætisráðherra hefur sagt að skýrslan verði rædd í þingsal. Ég væri til í að taka þetta skrefinu lengra. Við vorum með rakarastofuráðstefnu í kjölfar Metoo og ég held að þingmenn og starfsmenn þingflokka hefðu gott af því að fara í svipaðan vinnudag og ræða siðferðileg álitamál.“

Helga Vala segist telja að slíkt samtal myndi skila meiru en tveggja tíma umræða sem fram færi í ræðustól Alþingis.

„Það er mikilvægt að byggja upp traust en það kemur ekki úr einhverjum skýrslum heldur af gjörðum okkar.“

Meðal tillagna er að Siðfræðistofnun verði falið hlutverk við ráðgjöf og eftirfylgni með skýrslunni.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, er nokkuð efins um það. Traust og virðing í stjórnmálum hafi með allt annað en regluverkið að gera.

„Umræða um hvernig við eigum að hafa hlutina og hvað sé eðlilegt er alltaf góð út af fyrir sig. Menn sem hafa umboð frá öðrum þurfa að meta sjálfir hvenær það er farið yfir einhver mörk en ekki einhverjir sérfræðingar í háskólunum.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×