Innlent

Wikileaks segja fregnir um flótta Assange til Rúss­lands komnar frá Sigga hakkara

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigurður Þórðarson og Julian Assange.
Sigurður Þórðarson og Julian Assange.

Wikileaks segir að fregnir af því að Julian Assange hafi hugsað sér að flýja til Rússlands árið 2010 vera falskar. Enn fremur segja samtökin að fregnirnar séu runnar undan rifjum Sigurðar Þórðarsonar, sem kallaður er Siggi hakkari. Samkvæmt gögnum sem AP fréttaveitan hefur undir höndum skrifaði Assange bréf til ræðismanns Rússlands í London í nóvember 2010 þar sem hann bað um að vinur hans Israel Shamir gæti sótt um vegabréfsáritun til Rússlands í hans nafni.



Í samtali við AP sagðist Shamir ekki muna til þess hvor hann hefði farið með bréfið til ræðismannsins eða hvort hann hefði fengið vegabréfsáritun fyrir Assange. Hann gat ekki sagt til um hvort þetta hefði gerst í alvörunni.



Hins vegar var minni hans í betra ástandi í janúar 2011 þegar hann var í viðtali við rússneska útvarpsstöð. Þá sagði Shamir að hann hefði reynt að fá vegabréfsáritun fyrir Assange en hún hefði borist of seint og hann hefði ekki getað notað hana.



Á þessum tíma óttaðist Assange að vera handtekinn vegna ákæru um nauðgun og kynferðisbrot í Svíþjóði. Þaðan gæti hann verið framseldur til Bandaríkjanna. Assange hefur haldið til í sendiráði Ekvador í London frá árinu 2012.



Blaðamenn AP báru áðurnefnd gögn meðal annars undir fimm fyrrverandi starfsmenn Wikileaks til að staðfesta innihald þeirra.



Assange hefur ávalt neitað því að hafa brotið á tveimur konum í Svíþjóð en málið hefur nú verið fellt niður. Hins vegar á hann enn handtöku yfir höfði sér fyrir að mæta ekki fyrir dómara í Bretlandi og þar af leiðandi hefur hann ekki getað yfirgefið sendiráðið.



Wikileaks svaraði frétt AP á Twitter þar sem því var haldið fram að þessar fregnir væru rangar. Assange hefði aldrei sótt um vegabréfsáritun til Rússlands. Þá héldu þeir því fram að áðurnefnd gögn kæmu frá Sigga hakkara sem hefur verið dæmdur fyrir skjalafals, fjársvik og barnaníð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×