Erlent

Vilja ná samkomulagi við borgaralegu flokkana um næsta þingforseta

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven tók við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar árið 2014.
Stefan Löfven tók við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar árið 2014. Vísir/EPA
Jafnaðarmenn í Svíþjóð vilja ná samkomulagi við bandalag borgaralegu flokkana um að tilnefna í sameiningu nýjan þingforseta þegar þing kemur saman þann 24. september. Með þessu vilja Jafnaðarmenn leggja grunninn að frekara samstarfi á kjörtímabilinu milli hinna hefðbundnu blokka í sænskum stjórnmálum. SVT greinir frá.

Stefan Löfven, forsætisráðherra og leiðtogi Jafnaðarmanna, og Anders Ygeman, þingflokksformaður Jafnaðarmanna, greindu frá þessu eftir fund þingflokks Jafnaðarmanna fyrr í dag. „Ef við náum ekki saman milli blokkanna eru það í raun Svíþjóðardemókratar sem ráða úrslitum,“ segir Ygeman.

Kosningar fóru fram í Svíþjóð þann 9. september síðastliðinn þar sem rauðgrænu flokkarnir náðu 144 þingsætum en bandalag borgaralegu flokkanna 143. Svíþjóðardemókratar náðu svo inn 62 þingmönnum, sem þýðir að hvorug hefðbundnu blokkanna fékk meirihluta.

Valdamikið embætti

Jafnaðarmenn hafa haft það sem meginreglu að þingforseti skuli koma úr röðum stærsta flokksins á þingi. Ygeman segir þó að flokkurinn sé nú reiðubúinn til viðræðna um að þingforseti komi úr röðum borgaralegu flokkanna.

Embætti þingforseta í Svíþjóð er valdamikið embætti þar sem það er hann sem tilnefnir forsætisráðherra að loknum samtölum við leiðtoga flokkanna á þingi. Þingið greiðir svo atkvæði um tillögu þingforsetans. Hafi þingforseti tilnefnt nýjan forsætisráðherra í fjórum tilraunum, án þess að þingið samþykki tillöguna, þarf að boða til nýrra kosninga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×