Innlent

„Heimilisófriður“ axarmannsins í Reykjanesbæ flokkaður sem heimilisofbeldi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nokkrir ökumenn sem stöðvaðir voru í gærkvöldi í nótt reyndust hafa verið sviptir áður.
Nokkrir ökumenn sem stöðvaðir voru í gærkvöldi í nótt reyndust hafa verið sviptir áður. Vísir/Vilhelm
Maðurinn sem stórskemmdi lögreglubíl í Reykjanesbæ með öxi á laugardag hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 21. september næstkomandi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum. „Heimilisófriðurinn“ sem getið var í fyrstu frétt af málinu er jafnframt flokkaður sem heimilisofbeldi.

Greint var frá málinu á Vísi á laugardag en þar kom fram að lögreglumenn á Suðurnesjum hefðu brugðist við tilkynningu vegna heimilisófriðar í Reykjanesbæ. Þegar lögreglumenn komu á vettvang tók karlmaður á móti þeim með öxi og hóf strax að höggva á lögreglubílinn.

Í svari lögreglu á Suðurnesjum við fyrirspurn Vísis vegna málsins segir að það sem gengið hafi á inni á heimili mannsins sé flokkað sem heimilisofbeldi. Ekki er unnt að greina frekar frá þeim hluta málsins að öðru leyti en að enginn slasaðist.

Lögreglubíllinn sem maðurinn hjó í stórskemmdist og var óökufær í kjölfarið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verður gert við bifreiðina.

Þá verður málið sent Héraðssaksóknara til nánari rannsóknar þar sem um var að ræða m.a. ofbeldi gegn lögreglumönnum lögreglustjórans á Suðuresjum. Áður kom fram að töluverð átök þurfti til að yfirbuga manninn á laugardag. Ekki liggur fyrir hvort ákæra verði gefin út á hendur manninum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×