Innlent

Forseti Alþingis þurfi að útskýra tvöföldun á kostnaði fyrir þingi og þjóð

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Ágúst Ólafur Ágústsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, segir ekki í lagi að kostnaður við hátíðar Alþingis á Þingvöllum hafi tvöfaldast. Þetta kalli á nánari útskýringar bæði fyrir þingi og þjóð.

Heildar kostnaður við hátíðarfund alþingis á Þingvöllum, sem fór fram þann 18. júlí síðastliðinn, fór rúmar 40 milljónir fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun. Gert var ráð fyrir kostnaði upp á 45 milljónir í rekstraráætlun en heildar kostnaður endaði í tæpum 87 milljónum.

„Þessar tölur vekja talsverða athygli, sérstaklega ef við lítum til dæmis á að byggja þennan pall og gangvegi kostar yfir 39 milljónir króna. Maður hefði jafnvel haldið að það væri ódýrara að byggja einbýlishús á svæðinu fyrir sömu upphæð; 22 milljónir í lýsingu, þetta eru mjög sérkennilegar tölur, þannig að það þarf að minnsta kosti að skýra það betur fyrir þingheimi og þjóð,“ segir Ágúst Ólafur.

Hann segir augljóst að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Ágúst Ólafur mun taka þetta fyrir hjá fjárlaganefnd og óska eftir að fá frekari upplýsingar og sundurliðun kostnaðar.



Aðspurður hvort honum finnist forseti Alþingis eiga að axla ábyrgð svarar Ágúst því til að hann þurfi að útskýra kostnaðinn betur.

Fréttastofa hefur rætt við marga um málið í dag en fæstir þingmenn vilja tjá sig opinberlega en segjast ætla bíða frekari svara frá forseta Alþingis um þessa tvöföldun á kostnaði.

Í fyrramálið er fundur fjárlaganefndar á dagskrá og líklegt er að málið verði tekið fyrir þar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×