Lesanda Vísis þótti uppsett verð, 750 krónur, vera óhóflegt því núðlur séu alla jafna með ódýrari matvælum. Því til staðfestingar megi fá sömu núðlutegund á 249 krónur í verslun Nettó á Selfossi, steinsnar frá Þrastalundi.
Í samtali við Vísi tók Sverrir í sama streng. Í fljótu bragði þætti honum þetta hátt verð fyrir núðlur. Eftir að hafa spurst fyrir meðal starfsmanna Þrastalundar hafi niðurstaðan verið sú að um „mistök í verðlagningu“ hafi verið að ræða. Því hafi hann tekið ákvörðun um að lækka verðið í 450 krónur eftir ábendingu blaðamanns.

Hann vill jafnframt taka fram að í Þrastalundi sé búið að koma upp aðstöðu fyrir ferðalanga - „hér er snyrting sem er ekki rukkað fyrir notkun, fólk getur svo keypt sér mat í versluninni okkar og borðað í notalegu umhverfi. Hér er frítt íslenskt vatn eins og menn geta í sig látið, frítt internet og svo framvegis,“ segir Sverrir. Fólk sé því ekki aðeins að greiða fyrir vörurnar í Þrastalundi heldur einnig aðgengi að þessari aðstöðu.
Sjá einnig: Brönsinn í Þrastalundi milli tannanna á fólki
Þetta er í annað sinn á þessu ári sem verð í Þrastalundi hefur verið lækkað eftir símhringingu blaðamanns. Það gerðist síðast í upphafi árs þegar verðið á hálfslítra vatnsflösku var lækkað hressilega. Athygli vekur að vatnsflöskuverðlækkunin, úr 750 krónum í 450, er sú sama og í tilfelli núðluréttarins. Lækkunin á vatninu og núðlunum nemur því 40 prósentum.
Þrastalundur er vinsæll áningarstaður á Suðurlandi, þangað sem ferðamenn og áhrifavaldar leggja reglulega leið sína. Staðurinn hefur ítrekað ratað í fréttirnar, ekki aðeins fyrir verðlag og sýnileika á samfélagsmiðlum heldur einnig fyrir auðvelt aðgengi að áfengi í kjörbúð Þrastalundar. Þá hefur eigandinn, Sverrir Einar, einnig fangað athygli fjölmiðla fyrir margvísleg viðskipti, til að mynda með íbúðir, pizzur og gull.