Erlent

Flugmaður sænskrar orrustuflugvélar komst lífs af eftir árekstur við fuglahóp

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugvél af gerðinni JAS 39 C/D Gripen. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Flugvél af gerðinni JAS 39 C/D Gripen. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/getty
Sænsk orrustuþota af gerðinni JAS Gripen hrapaði í grennd við herflugvöll í bænum Ronneby í suðurhluta Svíþjóðar í morgun. Flugmaðurinn skaut sér út úr vélinni áður en hún brotlenti eftir árekstur við hóp fugla á flugi.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins SVT segir að flugmaðurinn hafi flogið þotunni inn í fuglahópinn og hafi í kjölfarið átt erfitt með að ná stjórn á henni. Í fyrstu hugðist hann lenda vélinni en hætti við og skaut sér í staðinn út úr henni.

Flugmaðurinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en samkvæmt frétt SVT er líðan hans eftir atvikum góð. Fleiri slösuðust ekki við brotlendinguna en flugmaðurinn var einn í vélinni.

Yfirvöld rannsaka nú slysið og aðdraganda þess. Þá logar enn í flaki flugvélarinnar og eru vegfarendur beðnir um að halda sig frá slysstað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×