Körfubolti

„Hver er að klappa núna, tík?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Diana Taurasi minnti heldur betur á sig í gær.
Diana Taurasi minnti heldur betur á sig í gær. vísir/getty
Á meðan daglega er deilt um hvor kunni meira fyrir sér í körfuboltafræðunum Michael Jordan eða LeBron James er ekki þörf á sömu umræðu í kvennakörfunni. Þar er sú bandaríska Diana Taurasi best frá upphafi. Næsta mál.

Taurasi hefur á ævintýralegum fjórtán ára ferli unnið WNBA-deildina þrisvar sinnum auk þess að skreppa til Evrópu á veturnar eins og þær bestu gera og vinna Meistaradeildina sex sinnum.

Afrekaskrá hennar er margar blaðsíður en Taurasi hefur níu sinnum verið valin í stjörnulið WNBA-deildarinnar, tvisvar sinnum verið útnefnd besti leikmaður lokaúrslitanna og þá er hún fjórfaldur Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu og stigahæsti leikmaður WNBA-deildarinnar frá upphafi. Svo eitthvað sé nefnt.

Taurasi sýndi í nótt enn og aftur, 36 ára gömul, að það er enginn að fara að ógna henni á stallinum í bráð þegar að hún skoraði 27 stig í 15 skotum, gaf tólf stoðsendingar og tapaði boltanum aldrei í sigri Phoenix Mercury gegn Connecticut Sun.

Leikurinn var í annarri umferð úrslitakeppninnar þar sem aðeins þarf að vinna einn leik til að komast í undanúrslitin en Taurasi átti aðra eins frammistöðu í fyrstu umferðinni þar sem að liðið lagði Dallas Wings. Taurasi hefur nú unnið þrettán svona leiki á ferlinum þar sem að aðeins einn leik þarf til að komast áfram en aldrei tapað. Hún er leikmaður stóru stundanna.

Taurasi var í miklum ham í gær en hún hafði takmarkaðan húmor fyrir Instagram-færslu Coutney Williams, leikmanns Sun, sem minnti á leikinn á Instagram með mynd af sér að fagna fyrir framan súra Taurasi.

View this post on Instagram

Gooo timeee!! Playoffs babyyyyy

A post shared by Courtney Williams (@courtneywilliams10) on Aug 23, 2018 at 12:02pm PDT



Ekki gerðu Sun-stelpur minna til að pirra þá bestu þegar að Jasmine Thomas klappaði saman höndum fyrir framan andlitið á Taurasi í fyrri hálfleik en Taurasi klappaði til baka ansi pirruð. Þegar að lokaflautið gall klappaði Taurasi aftur í átt að Thomas og kallaði svo á eftir henni: „Hver er að klappa núna, tík?“

Hún minntist svo aðeins á þetta í viðtali eftir leik þar sem að hún var spurð hver er galdurinn á bakvið að vinna alltaf í þessum leikjum þar sem að allt er undir.

„Þú mátt ekki vera hræddur. Það er ekkert mál að setja myndir á Instagram og klappa í andlitið á fólki en það skilar þér ekki sigrum,“ sagði Diana Taurasi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×