Innlent

Árásin á Shooters: Sneru aftur með fleiri með sér eftir að hafa verið vísað á dyr

Birgir Olgeirsson skrifar
Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Shooters í Austurstræti.
Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Shooters í Austurstræti. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
Fjórir menn hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna líkamsárásar á skemmtistaðnum Shooters í Austurstræti aðfaranótt sunnudags. Vísir greindi frá árásinni fyrr í morgun og kom þar fram að fjórir menn hefðu ráðist á dyravörð eftir að hafa verið vísað út af staðnum. 

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að tveimur mönnum var vísað út af staðnum. Þeir sneru aftur með fleiri menn með sér og réðust á tvo dyraverði. Annar dyravarðanna, karlmaður á fertugsaldri, var mikið slasaður eftir árásina og var fluttur strax á spítala þar sem hann dvelur enn. Samkvæmt heimildum Vísis er hann alvarlega slasaður og sagður hryggbrotinn. 

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að fjórir menn, á þrítugs- og fertugsaldri, séu grunaðir um árásina og voru þeir handteknir síðar á sunnudeginum. Vegna alvarleika málsins var ákveðið að óska eftir að þeir sættu gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar hagsmuna. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu lögreglustjóra um tveggja vikna gæsluvarðhald yfir mönnunum, til 7. september.

Rannsókn málsins miðar vel áfram en lögreglan segir að ekki sé hægt að gefa frekari upplýsingar um það á þessari stundu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×