Mannréttindasérfræðingar Sameinuðu þjóðanna segjast telja að allir þeir sem eiga aðild að stríðsátökunum í Jemen hafi gerst sekir um stríðsglæpi. Hvorki stjórnarher Jemens, bandalagsher Sáda sem styður hann, né uppreisnarmenn Húta hafi reynt að takmarka mannfall óbreyttra borgara.
Sérfræðingarnar vísa til árása á íbúðarhverfi þar sem þúsundir Jemena hafa fallið, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Bandalagsherinn hafi valdið mestu mannfallinu í slíkum árásum. Allir stríðsaðilar hafi tekið fólk höndum utan dóms og laga, stundað pyntingar, látið fólk „hverfa“ og fengið börn til liðs við sig.
Niðurstöður sérfræðinganna verða kynntar í skýrslu til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í september.
Stríðið í Jemen hefur geisað frá árinu 2015. Uppreisnarmenn Húta hafa sölsað undir sig stóran hluta landsins. Sádí-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin ásamt sjö öðrum arabaríkjum hafa hlutast til í landinu til aðstoðar stjórnarhernum. Bandalagsherinn hefur notið stuðnings Breta, Bandaríkjamanna og Frakka.

