Innlent

Vill að bólusetning verði skilyrði fyrir inntöku á leikskóla

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hildur Björnsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Fréttablaðið/Anton Brink
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hyggst leggja fram tillögu þess efnis á næsta borgarstjórnarfundi að almennar bólusetningar verði gert að skilyrði fyrir inntöku barna á leikskólum borgarinnar. Tillaga þess efnis var felld í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili.

Vekur Hildur athygli á tillögunni á Facebook-síðu sinni þar sem hún vitnar í tölur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að tilfelli mislinga hafi nær tvöfaldast á milli ára, þrátt fyrir enn sé nokkuð eftir af árinu 2018.

Í samtali við Vísi vitnar Hildur í fréttaflutning af áhyggjum sóttvarnarlæknis af þátttöku í almennum bólusetningum hér á landi. Hafði sóttvarnarlæknir áhyggjur af því að ef þáttaka minnkaði enn frekar á milli ára mætti búast við að hér á landi færu að sjást sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil

„Ég held að nú séu enn frekar skilyrði til þess að leggja fram þessa tillögu,“ segir Hildur en athygli vekur að þegar tillagan var felld árið 2015 lagðist sóttvarnarlæknir gegn henni, meðal annars á þeim forsendum að þátttaka í bólusetningum væri viðunandi.

Er Hildur bjartsýn á það að tillagan fái brautargengi nú og að mögulega sé afstaða sóttvarnarlæknis breytt frá árinu 2015.

„Ef maður kynnir sér það sem sóttvarnarlæknir sagði á sínum tíma og les svo það sem hann segir í síðasta mánuði, þá fer það ekki alveg saman. Mögulega er komin einhver ný afstaða í málið,“ segir Hildur sem mun leggja fram málið á þriðjudaginn þegar borgarstjórn kemur saman á nýjan leik eftir sumarfrí.

„Ég vona bara að við fáum upplýsta og yfirvega umræðu um þetta mál.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×