Erlent

Musk heldur því aftur fram að björgunarmaðurinn sé barnaníðingur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Elon Musk.
Elon Musk. Vísir/AP
Uppfinninga- og tæknijöfurinn Elon Musk virðist enn halda því fram að hellakafari, sem starfaði við björgun tælensku fótboltastrákanna í sumar, sé barnaníðingur.

Musk var harðlega gagnrýndur fyrir ummæli þess efnis í júlí. Greint var frá málinu á Vísi en umræddur björgunarmaður og hellakafari, Vern Unsworth, gagnrýndi Musk fyrir að hafa blandað sér í björgunaraðgerðirnar.

Musk svaraði Unsworth á Twitter-reikningi sínum og sagðist aldrei hafa séð hann í hellunum þar sem tælensku strákarnir sátu fastir. Musk lauk athugasemdum sínum á orðunum: „Sorrí, barnaníðingur, þú baðst um þetta“  og beindi þar orðum sínum til Unsworth.

Sjá einnig: Björgunarmaður vandar Musk ekki kveðjurnar: „Hann má stinga kafbátnum sínum þar sem hann verkjar“

Ásökunum Musk var síðar eytt enda virðist aldrei hafa verið fótur fyrir þeim. Þá bað hann Unsworth afsökunar á ummælum sínum eftir að sá síðarnefndi hótaði honum lögsókn.

Í gærkvöldi tók Musk hins vegar upp þráðinn að nýju er hann átti í orðaskiptum við Twitter-notanda sem minntist á atvikið.



„Finnst þér ekki skrýtið að hann hafi ekki lögsótt mig? Honum bauðst ókeypis lögfræðiþjónusta,“ skrifaði Musk í svari sínu, og vísaði þar til Unsworth. Þegar Twitter-notandinn gaf lítið fyrir þessar vangaveltur uppfinningamannsins spurði Musk ítrekað hvort hann hefði rannsakað málið sjálfur, og ýjaði enn að sekt Unsworth.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Musk kemur sér í vandræði á samfélagsmiðlum. Fyrr í þessum mánuði stefndu skortsölumenn fyrirtæki Musks, Tesla, fyrir markaðsmisnotkun og svik eftir að Musk ýjaði að því á Twitter að hann gæti tekið fyrirtækið af markaði.


Tengdar fréttir

Fjárfestar sannfærðu Musk um að halda Tesla á markaði

Elon Musk, stjórnarformaður og forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla birti í gær færslu á vef framleiðandans þar sem hann lýsir því yfir að hann sé hættur við áform sín um að taka fyrirtækið af markaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×