Innlent

Sagðir leika leik til að rýra réttindi sjómanna

Sveinn Arnarsson skrifar
Frá mótmælum sjómanna á Austurvelli í Reykjavík vegna kvótafrumvarps fyrir sex árum.
Frá mótmælum sjómanna á Austurvelli í Reykjavík vegna kvótafrumvarps fyrir sex árum. Fréttablaðið/Vilhelm
Forsvarsmenn sjómannafélags Íslands gagnrýna það að sjómenn séu látnir skrifa undir tímabundna ráðningarsamninga við útgerðir sem þeir starfi hjá. Þetta rýri réttindi þeirra. Mál sem þessi hafa ratað á borð dómstóla og var rætt við síðustu samningagerð útgerðarfélaganna við sjómenn.

Bergur Þorkelsson, gjaldkeri Sjómannafélags Íslands og sérfræðingur í réttindum sjómanna, segir útgerðirnar hafa leikið þennan leik að undanförnu.

„Við höfum verið að sjá aukningu á þessum samningum sem við teljum í mörgum tilvikum vera óþarfa. Við hjá Sjómannasambandinu skiljum að útgerðir geti þurft að gera slíka samninga við sjómenn ef menn vita ekki hvort skip séu í söluferli eða einhver vafi leiki á því hvort skip verði í notkun útgerðar í náinni framtíð. Hins vegar er óeðlilegt að sjómenn skrifi nýjan tímabundinn ráðningarsamning í hvert skipti þegar þeir fari um borð í skipið sem þeir hafa kannski verið á um langa hríð,“ segir Bergur.

Þetta hafi áhrif á réttindi þeirra þegar þeir eru í landi. „Ef sjómaður til að mynda verður veikur og kemst ekki á sjó vegna þessa getur hann ekki með nokkru móti sannað að hann hafi átt að fara á sjó þar sem hann hefur engan samning þar að lútandi. Því teljum við þetta ekki vera góða samninga fyrir okkar félagsmenn.“

Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, segir þetta auðvitað rýra réttindi sjómanna.

„Við höfum farið með svona mál fyrir héraðsdóm og Hæstarétt. Hæstiréttur hefur kveðið upp þann dóm að útgerðum sé ekki heimilt að leika þennan leik nema að hámarki í tvö ár. Við munum fara áfram með svona mál fyrir dómstóla fyrir okkar félagsmenn ef þurfa þykir,“ segir Einar Hannes. „Við höfum verið að sjá svona samninga og þetta er leyfilegt í ákveðinn tíma.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var þetta fyrirkomulag nokkuð rætt milli sjómanna og útgerðanna í síðustu samningalotu þeirra án þess að niðurstaða fengist um útfærsluna. Núverandi samningur þeirra rennur út í byrjun desember 2019.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×